Sprotafyrirtækið Better, sem veitir fasteignalán, hyggst fara á hlutabréfamarkað í gegnum fjárfestingafélag um óákveðna fjárfestingu (SPAC, special-purpose acquisition company) sem Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, fer fyrir. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Slík félög hafa safnað fé frá fjárfestum í því skyni að yfirtaka óskráð félög og fara með þau á hlutabréfamarkað. Við það þurfa rekstrarfélögin ekki að fara í gegnum nálarauga fylgir skráningu í kauphöll.

Tekjur Better voru yfir 850 milljónir Bandaríkjadala og hagnaðurinn 200 milljónir Bandaríkjadala.

Fram kemur í fréttinni að téð SPAC-félag Novators, Aurora Acquisition Corp, hafi verið metið á sjö milljarða Bandaríkjadala fyrir fjármögnun.

SoftBank fjárfesti í Better

Japanski risinn SoftBank Group fjárfesti nýverið í Better fyrir 500 milljónir Bandaríkjadala. Hann gæti lagt Better til 1,3 milljarða til viðbótar. Af því gætu 400 milljónir Bandaríkjadala komið frá öðrum fjárfestum. Þær 200 milljónir Bandaríkjadala sem eftir standa munu koma frá Aurora, segir í fréttinni.

Fram kemur í grein Ólafs Arinbjarnar Sigurðssonar, lögmanns á Logos, og Jónasar Más Torfasonar, lögfræðings á stofunni, að það sé einkenni SPAC-félaga að við stofnun þeirra og síðar skráningu í kauphöll liggi ekki fyrir í hvaða fyrirtæki félagið muni fjárfesta. Þau hafi því verið kennd við óútfyllta tékka (e. blank check companies).

„Eftir stofnun eru hlutabréf félagsins boðin almenningi til sölu í almennu útboði og í kjölfarið óskað eftir töku þeirra til viðskipta á markaði, líkt og við skráningu hefðbundinna félaga. Þeir fjárfestar sem kjósa að veita SPAC-félaginu fé eru þannig einkum að veðja á stofnendur og stjórnendur hins nýstofnaða félags, en ekki á rekstrargrundvöll og hagnaðarvon þess líkt og almennt megi ætla að ráði för.

Með þessum hætti er almennum fjárfestum m.a. veitt tækifæri til að taka þátt í yfirtöku á fyrirtækjum, sem oftast er eingöngu á færi stofnanafjárfesta eða efnameiri aðila. Allur gangur er á því hvernig fjárfestingunni er háttað en almennt er stefnt á að kaupa fyrirtæki sem hafa ekki fengið hlutabréf sín tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði. Eftir að kaupin hafa gengið í gegn eru hin keyptu félög sameinuð fjárfestingafélaginu og þannig „komin á hlutabréfamarkað,“ segja Ólafur Arinbjörn og Jónas Már í grein sinni.