Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar og viðskiptafélaga hans, fjárfesti í fjártæknibankanum Monzo í sumar fyrir 40 milljónir punda, jafnvirði um 7 milljarða króna. Þetta staðfestir Birgir Már Ragnarsson, meðeigandi í Novator, í samtali við Markaðinn.

„Við höfum mikla trú á félaginu og stjórnendum þess og sjáum fram á áframhaldandi stuðning við uppbyggingu félagsins,“ segir Birgir Már. „Félagið er vel fjármagnað með traustan fjárfestahóp og hefur staðið sig frábærlega í að ná til sín nýjum viðskiptavinum.“

Monzo gekk frá 60 milljóna punda fjármögnun um miðjan júní og var félagið þá metið á 1,2 milljarða punda, um 211 milljarða króna. Áhættufjárfestingasjóðurinn General Catalyst Partners, sem var á meðal fjárfesta í tölvuleikjafyrirtækinu CCP, tók einnig þátt í hlutafjáraukningunni. Verðmatið var þó um 40 prósentum lægra en í fjármögnunarumferðinni sumarið 2019 þegar félagið var metið á 2 milljarða punda.

Frá því að Monzo setti bankaappið sitt í loftið árið 2015 hafa meira en 4,4 milljónir manns skráð sig í viðskipti hjá bankanum. Áskoranir sem felast í því að breyta vinsældum í hagnað hafa hins vegar magnast í kórónakreppunni.

Samdráttur í ferðalögum hefur komið illa niður á Monzo sem hefur reitt sig á þjónustugjöld vegna kortanotkunar sem helstu tekjulind sína. Neyddist bankinn til að segja upp 120 manns til að bregðast við faraldrinum.

Í síðasta ársreikningi, sem birtur var um mitt ár, var rekstrarhæfi félagsins dregið í efa. Tekjur Monzo höfðu vaxið úr 13 milljónum punda upp í 56 milljónir punda en tapið nam 113 milljónum punda, tæplega 20 milljörðum króna, og rúmlega tvöfaldaðist milli ára. TS Anil, nýr forstjóri Monzo, ætlar að snúa þessari þróun við. Bankinn hefur nýlega sett fyrirtækjareikninga á markaðinn auk þess að bjóða einstaklingum upp á betri þjónustu gegn gjaldi.

Novator hefur fjárfest í fjölda nýsköpunar- og tæknifyrirtækja á undanförnum árum. Má þar nefna greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe sem var metið á 36 milljarða dala, jafnvirði 4.740 milljarða króna, í síðustu hlutafjáraukningu fyrr á þessu ári.

Þá gekk Novator frá sölu á hlut sínum í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play í september. Novator, sem kom að stofnun þess árið 2005 og átti 20 prósent fyrir söluna, fékk 440 milljónir evra, um 70 milljarða króna, fyrir sinn hlut.