Fjárfestingafélagið Novator hefur selt hlut sinn í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play til franska fjarskiptafélagsins Iliad Group.

Gengi viðskiptanna er sagt tæp 39% hærra en lokagengi Play í pólsku kauphöllinni á föstudag. Miðað við það er markaðsvirði hlutafjár Play metið á 2,2 milljarða evra og 20% hlutur Novator á 440 milljónir evra, jafnvirði rúmra 70 milljarða íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Novator en Iliad Group, sem er sjötta stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu, mun í kjölfarið gera öðrum hluthöfum Play yfirtökutilboð.

Novator kom að stofnun Play árið 2005 og var félagið valið í útboði pólska ríkisins til að hafa umsjón með uppbyggingu 3G fjarskiptakerfis þar í landi. Novator eignaðist meirihluta í félaginu árið 2007 og var það skráð á markað í Kauphöllinni í Varsjá árið 2017.

Play er í dag stærsta fjarskiptafélag Póllands með yfir fimmtán milljónir viðskiptavina og 28% markaðshlutdeild, er fram kemur í tilkynningu.

Þar er haft eftir Björgólfi Thor Björgólfssyni, eiganda Novator, að það hafi verið markmið þeirra að byggja upp öflugt fjarskiptafyrirtæki.

„Við erum stolt af fjárfestingunni og þeim árangri sem félagið hefur náð undir okkar stjórn síðastliðin 15 ár. Nú er þessum mikilvæga kafla lokið og við nýtum reynsluna til uppbyggingar á öðrum mörkuðum. Í því sambandi horfum við núna til Suður-Ameríku þar sem tækifæri er til að skapa sér stöðu á fastmótuðum mörkuðum.“

Novator stofnaði einnig íslenska fjarskiptafyrirtækið NOVA árið 2007 og á enn hlut í félaginu.