Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur fjárfest í tæknibrellufyrirtækinu DNEG fyrir 250 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 32 milljarða króna. Við það eignast fjárfestingafélagið 15 prósenta hlut í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í erlendum fjölmiðlum.

DNEG hefur meðal annars hlotið sex Óskarsverðlaun fyrir tæknibrellur, þar á meðal fyrir Tenet (2021), Interstellar (2015) og Inception (2011).

Fjármagnið verður nýtt til að straumlínulaga reksturinn, sameina minni fjárfestingar og leggja drög að auknum vexti. Aukin eftirspurn sé eftir sjónvarpsefni og tölvuleikjum, segir í tilkynningu.

Björgólfur Thor, stjórnarformaður Novator sem brátt mun taka sæti í stjórn DNEG, segir að mikil eftirspurn sé eftir gæða efni sem skapi sóknarfæri á fjölmiðlamarkaði og afþreyingariðnaði. DNEG sé í góðri aðstöðu til að grípa þau tækifæri.

DNEG er með tæplega sjö þúsund starfsmenn og með starfsemi í Norður Ameríku, Evrópu og Asíu.