Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, mun fá 48 milljarða króna hlut sinn í Telecom Italia ef yfirtökutilboð alþjóðlegu sjóðastýringarinnar KKR gengur eftir. Þetta kemur fram í frétt Innherja.

Novator er í hópi stærstu hluthafa fjarskiptarisans með tæplega þriggja prósenta hlut.

Telecom Italia er stærsta fjarskiptafélag Ítalíu. Hluthafar félagsins og ítölsk stjórnvöld þurfa að samþykkja yfirtökuna.

Yfirtökutilboðið, sem nemur alls 33 milljörðum evra með yfirtöku á skuldum ítalska fjarskiptafélagsins sem er skráð á markað, verðmetur félagið á 10,7 milljarða evra. Það er 45 prósentum hærra en gengi félagsins var þegar mörkuðum var lokað á föstudaginn.

Novator hefur verið hluthafi í Telecom Italia um nokkurra ára skeið, eða að minnsta kosti frá árinu 2017 þegar félagið studdi vogunarsjóðinn Elliott Managment Corporation í slag hans við franska fjárfestingafélagið Vivandi, sem er stærsti hluthafi Telecom Italia. En í október 2020 greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að hlutur Novator, í gegnum væri kominn upp í 3 prósent, segir í frétt Innherja.

Rekstur Telecom Italia, sem var verðmætasta fjarskiptafélag Evrópu á tíunda áratugnum, hefur gengið brösuglega. Áður en fréttirnar af tilboðinu bárust hafði gengi ítalska félagsins lækkað um fjórðung frá júní og nær tvo þriðju frá árinu 2018. KKR á nú þegar 37,5 prósenta hlut í dótturfélagi Telecom Italia sem heldur utan um innviði félagsins en hefur nú gert tilboð í fyrirtækið í heild sinni með það fyrir augum að taka það af markaði.