Nova hefur tekið í notkun fyrsta 5G sendinn á Íslandi og hefur hafið prófanir á 5G farsíma- og netþjónustu til viðskiptavina sinna.

Nova sótti um 5G tilraunarleyfið til Póst og fjarskiptastofnunar fyrr í þessum mánuði og hefur fyrsti sendirinn nú verið settur upp á þaki Nova við Lágmúla og í versluninni á fyrstu hæð er þráðlaus netbeinir sem getur móttekið 5G merki. Tilraunirnar munu taka nokkra mánuði en þróunin í búnaði fyrir þráðlaus fjarskipti hefur verið mjög hröð að undanförnu.

„Ákvörðunin um að fara í 5G er stórt skref í uppbyggingu farsímakerfis Nova og gerir fyrirtækinu kleift að mæta síaukinni netnotkun viðskiptavina okkar. Við finnum að þeir hafa miklar væntingar til þess að við bjóðum upp á 5G hraða á sama tíma og fólk fær hann í öðrum löndum,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova en fyrirtækið var einnig fyrst til að taka upp bæði 3G og 4G tæknina hér á landi.

Þegar uppfærslu fjarskiptakerfis Nova í 5G verður lokið munu notendur njóta að meðaltali tífalt meiri nethraða miðað við 4G. Búast má við að hún verði komin í almenna útbreiðslu hér á landi á næsta ári, árið 2020.

Margrét segir stór stökk í nethraða yfirleitt leiða af sér stofnun fjölda nýrra fyrirtækja og jafnvel beinar samfélagsbreytingar. Því sé uppbygging fjarskiptakerfa í flokki afar mikilvægra innviðafjárfestinga.