Fjarskiptafélagið Nova hefur ákveðið að gefa starfsmönnum fyrirtækisins hlutabréf í félaginu fyrir vel unnin störf.
Í tilkynningu frá fjarskiptafélaginu segir að það sé stærsti hluthafi Nova, bandaríska fjárfestingafélagið Pt Capital sem ákvað að verðlauna 111 starfsmenn í fullu starfi og í hlutfalli við starfsaldur.
Markaðsverðmæti hlutabréfanna er frá 100 til 500 þúsund krónur og að auki mun Nova greiða launabónus til að mæta staðgreiðsluskatti starfsmanna vegna gjafarinnar.
Gjöfin kemur í kjölfar þess að Nova verður skráð á aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefst hlutafjárútboð þann 3. júní.
Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova segir í tilkynningunni að það sé mikil spenna fyrir skráningu félagsins á markað og það sé verið að þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf með gjöfinni.
„Hjá Nova er einstakur hópur starfsfólks sem á stóran þátt í velgengni Nova, sem meðal annars sést á því að við höfum verið efst fjarskiptafyrirtækja í Ánægjuvoginni 13 ár í röð, nokkuð sem við í Nova liðinu erum öll stolt af. Núna eru tímamót og nýr kafli í sögu Nova og ánægjulegt að starfsfólk verði jafnframt hluthafar í félaginu sem og viðskiptavinir,“ segir Margrét.