Fjarskiptafélagið Nova er í einkaviðræðum við sömu erlendu fjárfesta og Sýn um mögulega sölu og endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins samkvæmt heimildum Markaðarins. Viðræðurnar hafa verið aðskildar en að baki þeim liggja sömu forsendur.

Samsetning fjarskiptakerfisins, eignarhald og núgildandi samkomulag á milli fyrirtækjanna tveggja er með þeim hætti að Nova, sem er að mestu leyti í eigu bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Pt Capital og Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, þarf að vera með í ráðum ef Sýn ákveður að selja óvirka innviði sína.

Stór hluti af fjarskiptakerfinu eru óvirkir innviðir, til að mynda rafkerfi og sendaturnar. Samkeppni fjarskiptafyrirtækja felst í virka búnaðinum, það er hvernig sendarnir sem eru á stálturnunum virka. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu íslensku fjarskiptafyrirtækjanna.

Sýn tilkynnti 23. október að náðst hefði samkomulag við erlenda fjárfesta um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu og endurleigu á óvirkum innviðunum. Í tilkynningunni kom fram að viðskiptin, miðað við þá skilmála sem liggja fyrir, myndu styrkja efnahagsreikning félagsins og „gæti væntur söluhagnaður Sýnar numið yfir sex milljörðum króna, gangi viðskiptin eftir“.

Þá kom fram að gerður yrði langtímaleigusamningur til 20 ára, sem tryggja myndi áframhaldandi aðgang Sýnar að hinum óvirku farsímainnviðum. Óskuldbindandi tilboð er á borði beggja félaga en viðskiptin eru háð áreiðanleikakönnun og eftir atvikum aðkomu eftirlitsstofnana.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hafði framtakssjóðurinn Innviðir fjárfestingar, sem er að langstærstum hluta fjármagnaður af lífeyrissjóðum og stýrt af Summu rekstrarfélagi, sýnt því áhuga að koma að kaupum á innviðum Sýnar og Nova eftir að greint var frá áformunum í lok ágúst. Innviðir eru þó ekki á meðal þeirra sem eiga í einkaviðræðunum sem nú standa yfir. Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, var á meðal þeirra sem kom sjóðnum á fót fyrir um fimm árum síðan.

Á alþjóðlega fjarskiptamarkaðinum hefur verið tilhneiging í áttina að því að skipta fyrirtækjum upp í innviðafyrirtæki annars vegar og sölu- og þjónustufyrirtæki hins vegar. Fyrirtækin halda virka búnaðinum en setja óvirku innviðina í sérfélag sem síðan er selt. Nýlega var greint frá því að sænski fjarskiptarisinn Telia hefði selt dótturfélagið Telia Carrier, sem heldur utan um innviði þess, til Polhem Infra, sem er fjárfestingafélag á vegum sænskra lífeyrissjóða.

Vodafone Global setti alla senda­turna sína í Evrópu í dótturfélagið Vantage Towers fyrr á þessu ári og áformar að skrá félagið á hlutabréfamarkað á fyrsta fjórðungi næsta árs. „Þarna er lagt upp með að ná 27 sinnum EBITDA [rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir] með sölunni,“ sagði Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar í samtali við Markaðinn í byrjun september. Hann benti á að í nágrannaríkjum, sem svipar meira til íslenska markaðarins, séu EBITDA-margfaldarar við sölu á slíkum innviðafyrirtækjum á bilinu 17 til 25.