Íslendingar nýttu ferðagjöf stjórnvalda hjá 675 fyrirtækjum. Þetta kemur fram í tölum frá Ferðamálastofu.

Þar er gerð grein fyrir 915,4 milljónum króna sem Íslendingar nýttu af ferðagjöfinni. Eins og áður hefur komið fram fékk FlyOver Iceland meira af ferðagjöfinni en nokkurt annað fyrirtæki, um 53 milljónir króna. Þar á eftir voru N1 með um 49 milljónir, Olís með 44,7 milljónir og KFC með 32 milljónir.

Heimsóknir á veitingastaði voru vinsæl leið til að verja ferðagjöfinni, og fékk Pizza Pizza ehf., sem reka Domino's á Íslandi, tæplega 25 milljónir, Hlöllabátar 21,7 milljónir og Subway 11,7 milljónir. Þá var gjöfin einnig nýtt hjá veitingastöðum sem ekki eru hluti af stærri keðjum og á öldurhúsum. Sæta svínið og Tapasbarinn fengu um 5 milljónir hvort, Prikið 717 þúsund og Dillon 270 þúsund.

Margir nýttu ferðagjöfina einnig til að skella sér í bað og fékk Bláa lónið 26,3 milljónir, Vök Baths 10,4 og Krauma náttúrulaugar 7,8 milljónir.

Hótel landsins voru líka vinsæl og fengu Íslandshótel hf. 30,8 milljónir, Flugleiðahótel 26,9 milljónir og KEAhótel 10,9 milljónir.

Sum fyrirtæki fengu þó mun lægri upphæðir. Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum fékk minnst allra, alls 1.500 krónur. Þar fyrir ofan var Skriðuklaustur með 2.201 krónu og Minjasafn Austurlands með 2.400.