Daglegum notendum samfélagsmiðlarisans Facebook fækkaði í fyrsta sinn frá stofnun fyrirtækisins fyrir átján árum síðan. Í síðasta ársfjórðungi 2021 voru daglegir notendur 1,929 milljarðar og lækkar frá 1,930 milljarða í ársfjórðungnum þar á undan.
Meta Networks, móðurfyrirtæki Facebook, varar við því að innkoma fyrirtækisins gæti fallið vegna aukinnar samkeppni við önnur fyrirtæki á borð við TikTok og Youtube. Þá hafi einnig dregið úr sölu á auglýsingaplássi á síðunni.
Eftir að verðbréfamarkaðir í New York lokuðu í fyrradag féll hlutabréf Meta um tuttugu prósent í verði. Markaðsvirði fyrirtækisins féll um tvö hundruð milljörðum Bandaríkjadala.
Verðhrunið hélt áfram í gær og nú hefur hlutabréfaverð Meta dregist saman um 26,4 prósent og markaðsvirði fyrirtækisins um 230 milljörðum dala.
Hlutabréf í öðrum samfélagsmiðlum, meðal annars Twitter, Snapchat, Spotify og Pinterest, féllu einnig í verði.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hefur persónulega tapað um þrjátíu milljörðum dala. Hann segir fyrirtækið tekið högg þar sem notendur, sérstaklega þeir sem yngri eru, eru að sækja í meira magni til annarra miðla sem séu í samkeppni við Facebook.
Breytingar á reglum Apple um gagnaleynd hafa einnig gert það að verkum að fyrirtækið á erfiðara með að beina auglýsingum að ákveðnum hópum og fylgjast með gengni auglýsinganna. Breytingarnar kostuðu Meta um tíu billjón Bandaríkjadali þetta árið að sögn Dave Wehner fjármálastjóra fyrirtækisins.
Meta er að stækka sjónarsviðið sitt með því að bjóða upp á meiri myndbandsdeilingu og að opna sýndarveruleikaheiminn Metaverse. Fyrirtækið vonar að það muni hafa jákvæð áhrif á hagnað fyrirtækisins líkt og fyrri breytingar en samkeppni við aðra samfélagsmiðla gæti sett fyrirtækinu meiri skorður.