Dag­legum not­endum sam­fé­lags­miðlarisans Face­book fækkaði í fyrsta sinn frá stofnun fyrir­tækisins fyrir á­tján árum síðan. Í síðasta árs­fjórðungi 2021 voru dag­legir not­endur 1,929 milljarðar og lækkar frá 1,930 milljarða í árs­fjórðungnum þar á undan.

Meta Networks, móður­fyrir­tæki Face­book, varar við því að inn­koma fyrir­tækisins gæti fallið vegna aukinnar sam­keppni við önnur fyrir­tæki á borð við TikTok og Youtu­be. Þá hafi einnig dregið úr sölu á aug­lýsinga­plássi á síðunni.

Eftir að verð­bréfa­markaðir í New York lokuðu í fyrradag féll hluta­bréf Meta um tuttugu prósent í verði. Markaðs­virði fyrir­tækisins féll um tvö hundruð milljörðum Banda­ríkja­dala.

Verðhrunið hélt áfram í gær og nú hefur hlutabréfaverð Meta dregist saman um 26,4 prósent og markaðsvirði fyrirtækisins um 230 milljörðum dala.

Hluta­bréf í öðrum sam­fé­lags­miðlum, meðal annars Twitter, Snapchat, Spotify og Pin­terest, féllu einnig í verði.

Mark Zucker­berg, for­stjóri Meta, hefur persónulega tapað um þrjátíu milljörðum dala. Hann segir fyrir­tækið tekið högg þar sem not­endur, sér­stak­lega þeir sem yngri eru, eru að sækja í meira magni til annarra miðla sem séu í samkeppni við Facebook.

Breytingar á reglum App­le um gagna­leynd hafa einnig gert það að verkum að fyrir­tækið á erfiðara með að beina aug­lýsingum að á­kveðnum hópum og fylgjast með gengni aug­lýsinganna. Breytingarnar kostuðu Meta um tíu billjón Banda­ríkja­dali þetta árið að sögn Dave Wehner fjár­mála­stjóra fyrir­tækisins.

Meta er að stækka sjónar­sviðið sitt með því að bjóða upp á meiri mynd­bands­deilingu og að opna sýndar­veru­leika­heiminn Meta­ver­se. Fyrir­tækið vonar að það muni hafa já­kvæð á­hrif á hagnað fyrir­tækisins líkt og fyrri breytingar en sam­keppni við aðra sam­fé­lags­miðla gæti sett fyrir­tækinu meiri skorður.