Erlent

Norwegian skilaði óvæntum hagnaði

Norwegian skilaði hagnaði upp á 300 milljónir norskra króna á öðrum fjórðungi ársins en greinendur höfðu búist við töluverðum taprekstri á tímabilinu.

Vöxtur Norwegian hefur verið afar ör á undanförnum árum. Fréttablaðið/Getty

Norwegian Air skilaði mettekjum og óvæntum hagnaði á öðrum fjórðungi ársins, samkvæmt nýbirtu uppgjöri norska flugfélagsins.

Tekjur lággjaldaflugfélagsins námu 10,2 milljörðum norskra króna, sem jafngildir um 135 milljörðum íslenskra króna, á ársfjórðungnum og jukust um 32 prósent á milli ára. Félagið skilaði hagnaði upp á 296 milljónir norskra króna, 3,9 milljarða íslenskra króna, borið saman við tap upp á 691 milljón norskra króna á sama tímabili í fyrra. Greinendur höfðu spáð því að flugfélagið myndi tapa um 468 milljónum norskra króna á fjórðungnum.

Björn Kjos, stofnandi og forstjóri Norwegian, sagði að þrátt fyrir að flugfélagið væri í miklum vaxtarfasa þessi misserin hefði því tekist að skila hagnaði og draga úr kostnaði á öðrum ársfjórðungi. „Til framtíðar litið mun hægjast á vextinum og við munum uppskera eins og við höfum sáð til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar, starfsfólk og hluthafa,“ sagði forstjórinn.

Nokkur evrópsk flugfélög hafa lýst yfir áhuga á því að taka norska félagið yfir. Stjórn Norwegian hefur þegar hafnað tveimur yfirtökutilboðum frá IAG, eiganda British Airways, og þá er talið að þýska flugfélagið Lufthansa íhugi nú að leggja fram tilboð í félagið.

Lággjaldaflugfélög á borð við Norwegian og WOW air hafa hrist rækilega upp í markaðinum fyrir flug yfir Norður-Atlantshafið á síðustu árum með því að undirbjóða keppinauta sína. Vöxtur Norwegian hefur verið sérstaklega hraður en til marks um það jókst sætaframboð félagsins á flugleiðum yfir Atlantshafið um 111 prósent frá vetrinum 2016 til vetrarins 2017, samkvæmt tölum frá greinendum OAG. 

EBITDAR Norwegian - afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta, afskriftir og leigu - nam 1,6 milljörðu norskra króna á öðrum ársfjórðungi en greinendur höfðu spáð EBITDAR upp á 916 milljónir norskra króna á tímabilinu. Til samanburðar var EBITDAR félagsins 990 milljónir norskra króna á öðrum fjórðungi síðasta árs.

Hlutabréf í Norwegian hafa hækkað um 26 prósent í verði það sem af er ári, en það er fyrst og fremst talið koma til vegna áhuga IAG á félaginu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Erlent

Bill Gates vill hækka fjár­magns­tekju­skatt

Erlent

Breskt flug­fé­lag fellir niður flug og lýsir yfir gjald­þroti

Erlent

Deutsche Bank greiðir hæstu vextina

Auglýsing

Nýjast

Stjórn Klakka telur skil­yrði um rann­sókn ekki upp­fyllt

Ólögleg smálán valdi mestum vanda

Gefur Kviku sama frest til að hætta við kaup á GAMMA

Ármann: „Höfum ekkert með stjórn GAMMA að gera“

Tíu prósenta fækkun flugsæta í sumar

Taka 4 millj­arð­a úr Kvik­u láti þeir ekki af „grimmd­ar­­verk­um“

Auglýsing