Flugfélögin Norwegian Air og JetBlue Airways hafa náð samkomulagi um samstarf um flug yfir Atlantshafið. Búist er við að það hefjist um mitt næsta ár.

Reuters greinir frá samstarfinu sem var tilkynnt í dag. Það felur í sér að viðskiptavinir geti bókað tengiflug með báðum flugfélögum á bókunarsíðum þeirra beggja. Þannig verði auðveldara að ferðast yfir hafið með lágum tilkostnaði.

Norwegian hefur hrist upp í flugmarkaðinum með því að bjóða lægri fargjöld yfir Atlantshafið en aðrir stærri keppinautar. Norska flugfélagið hefur hins vegar ekki verið með samstarfsfélag í Bandaríkjunum fyrr en nú.

Hlutabréf Norwegian hækkuðu um rúm 6 prósent eftir að tilkynnt var um samstarfið.