Ef ný áætlun Norwegian ná fram að ganga mun félagið einbeita sér að innanlandsflugi í Noregi og styttri áætlunarferðum innan Norðurlandanna og til lykiláfangastaða í Evrópu. Flugfélagið mun því ekki lengur fljúga yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna, en Norwegian hefur verið einn helsti keppinautur Icelandair í þeim efnum.

Gengi bréfa Icelandair hafa hækkað um tæplega eitt prósent það sem af er degi í 29 milljón króna viðskiptum og stendur í 1,54 krónum á hlut.

„Innanlandsflug í Noregi, innan Norðurlandanna og til Evrópu hefur alltaf verið hryggjarstykki leiðarkerfis Norwegian. Þessar leiðir munu leggja grunninn að ásýnd Norwegian til framtíðar,“ er haft eftir Jakob Schram, forstjóra Norwegian í fréttatilkynningu vegna málsins.

Norski viðskiptamiðillinn Dagens Næringsliv greindi frá því desember að átök væru milli forstjórans Schram og stjórnar Norwegian um hvort leggja ætti niður áætlunarflug yfir Atlantshafið. Nú virðist ljóst að Schram hefur ekki tekist að fá meirihluta stjórnar á sitt band og meiriháttar samdráttur á starfsemi Norwegian er í spilunum.

Afleiðingin er sú að fjöldi dótturfélaga Norwegian verður lagður niður og allt að 2000 manns munu missa starf sitt hjá félaginu. Sky News greinir frá því að meira en helmingur þeirra sem missa starfið eru starfsmenn félagsins með bækistöð á Gatwick flugvelli í Bretlandi, eða um 1100 manns.

Norwegian freistar þess nú að fá frekari ríkisaðstoð í Noregi til að tryggja rekstur félagsins. Heildarumfang stuðnings norskra stjórnvalda við flugfélög og rekstrarfélög flugvalla þar í landi nam um 14 milljörðum norskra króna á síðasta ári, eða sem samsvarar um 210 milljörðum íslenskra króna.