Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur ákveðið að fresta því að taka á móti sextán nýjum flugvélum frá Boeing og Airbus í því augnamiði að draga úr fjárfestingarútgjöldum sínum. Eru áformin sögð liður í stefnubreytingu flugfélagsins sem ætlar nú að leggja aukna áherslu á arðsemi í stað vaxtar.

Norska flugfélagið sagðist í tilkynningu ætla að fresta því að taka á móti annars vegar tólf Boeing 737 MAX vélum til ársins 2023, en áður var gert ráð fyrir að flugvélarnar bættust í flota félagsins árið 2020, og hins vegar fjórum Airbus 321LR vélum til ársins 2020 í stað 2019. Eru frestanirnar sagðar vera í samræmi við nýja stefnu félagsins

Flugfélagið, sem hefur vaxið af krafti undanfarin ár, tilkynnti nýverið að það hygðist ráðast í forgangsréttarútboð og afla sér með þeim hætti aukins hlutafjár upp á þrjá milljarða norska króna, jafnvirði um 42 milljarða íslenskra króna.

Þá greindi flugfélagið frá því í fyrr í dag að tekjur félagsins á hvern farþega hefðu aukist í síðasta mánuði frá fyrra ári. Hins vegar hefði sætanýting félagsins versnað í mánuðinum og farið niður í 76,1 prósent.

Frétt Markaðarins: Norwegian færðist of mikið í fang