Norvik, sem á um 65 prósenta hlut í Bergs Timber, fær greiddar um 22 milljónir sænskra króna, jafnvirði ríflega 280 milljóna íslenskra króna, í arð frá sænska félaginu í ár ef tillaga stjórnar félagsins nær fram að ganga.

Stjórn Bergs Timber, sem keypti í byrjun síðasta árs flest dótturfélög Norvikur fyrir liðlega tíu milljarða króna, leggur til við aðalfund að greiddur verði arður upp á 34 milljónir sænskra króna vegna síðasta rekstrarárs.

Bergs Timber hagnaðist um 188 milljónir sænskra króna, sem jafngildir um 2,4 milljörðum íslenskra króna, á síðasta rekstrarári sem náði frá september 2017 til desem­ber 2018.

Feðgarnir Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri og stjórnarformaður Norvikur, og Guðmundur Helgi Jónsson, stjórnarformaður BYKO, sitja í stjórn sænska félagsins.

Dótturfélögin sem fóru undir Bergs Timber voru rekin undir merkjum Norvik í Lettlandi, Eistlandi og Bretlandi. Við söluna, sem gekk endanlega í gegn um miðjan maí í fyrra, eignaðist Norvik 170 milljónir nýrra hluta í Bergs Timber, að virði um 520 milljónir sænskra króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í félaginu, en auk þess getur Norvik fengið greiddar 310 milljónir sænskra króna í formi reiðufjár.

Af kaupverðinu fékk Norvik greiddar 100 milljónir sænskra króna í maí í fyrra og fær sömu fjárhæð greidda 30. júní næstkomandi. 70 milljónir sænskra króna verða greiddar til Norvikur í lok júní á næsta ári og til viðbótar gæti félagið átt rétt á árangurstengdri greiðslu upp á allt að 40 milljónir sænskra króna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Jón Helgi sagði í samtali við Morgunblaðið síðasta sumar að ætlun Norvikur væri að selja hluta af hlutabréfum sínum í Bergs Timber.­ Sú sala hefði ekki verið tímasett.