Norski olíusjóðurinn, stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heiminum, jók verulega við kaup sín í íslenskum ríkisskuldabréfum í fyrra og nam fjárfesting sjóðsins í slíkum bréfum um 1.313 milljónum norskra króna, jafnvirði nærri 20 milljarða íslenskra króna, í árslok 2020. Nam aukningin um 80 prósentum en árið áður átti sjóðurinn íslensk ríkisskuldabréf fyrir 727 milljónir norskra króna.

Þetta má lesa út úr yfirliti yfir allar fjárfestingar norska olíusjóðsins sem birt var samhliða útgáfu ársskýrslu hans í liðinni viku. Eign sjóðsins í íslenskum ríkisbréfum – í norskum krónum talið – hefur ekki verið meiri í að minnsta kosti fimmtán ár.

Olíusjóðurinn átti í lok síðasta árs 0,14 prósenta hlut í Arion banka að virði 240 milljónir króna, skuldabréf í Landsvirkjun upp á 7,6 milljarða króna og kröfur á hendur eignarhaldsfélögunum Kaupþingi og LBI fyrir samanlagt 340 milljónir króna. Þá seldi sjóðurinn í fyrra öll bréf sín í Marel en hann hafði átt 0,26 prósenta hlut í félaginu í árslok 2019 sem var þá metinn á 1,2 milljarða króna