Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum, fjárfesti í hlutabréfum í Marel fyrir ríflega 1,2 milljarða króna á síðasta ári. Þetta má lesa út úr yfirliti yfir allar fjárfestingar sjóðsins sem birt var samhliða útgáfu ársskýrslu hans í síðustu viku.

Olíusjóðurinn keypti á árinu 0,26 prósenta hlut í Marel, langsamlega stærsta fyrirtækinu í Kauphöllinni, með markaðsvirði upp á um 420 milljarða króna, og var hluturinn metinn á 89,8 milljónir norskra króna, jafnvirði liðlega 1,2 milljarða króna, í bókum sjóðsins í lok síðasta árs.

Þess má þó geta að markaðsvirði félagsins og þar með eignarhlutar norska sjóðsins hefur lækkað um ellefu prósent frá áramótum.

Fjölmargir erlendir fjárfestingarsjóðir bættust sem kunnugt er í hluthafahóp Marels í hlutafjárútboði sem félagið efndi til síðasta vor samhliða skráningu í kauphöllina í Amsterdam. Sjóðirnir, þar á meðal sjóðir á vegum Capital Group, Teleios Capital, Baron, Blackrock, Investec, Vanguard og Janus Henderson, hafa margir hverjir bætt við hlut sinn í félaginu á undanförnum mánuðum.

Fjárfestingar norska olíusjóðsins í íslenskum ríkisskuldabréfum og skulda- og hlutabréfum íslenskra félaga námu samanlagt tæplega 18,1 milljarði króna í lok síðasta árs og jukust um rúm þrjátíu prósent frá fyrra ári þegar þær voru um 13,7 milljarðar króna.

Það skýrist einkum af kaupum sjóðsins í Marel og íslenskum ríkisskuldabréfum en eign hans í síðarnefnda eignaflokknum jókst um nær helming á árinu. Átti olíusjóðurinn íslensk ríkisskuldabréf að virði alls 727 milljónir norskra króna, jafnvirði um 9,9 milljarða króna, í árslok 2019.

Auk þess átti norski olíusjóðurinn í lok síðasta árs 0,14 prósenta hlut í Arion banka að virði 215 milljónir króna, skuldabréf í Landsvirkjun upp á 6,6 milljarða króna og kröfur á hendur eignarhaldsfélögunum Kaupþingi og LBI, sem halda utan um eignir Kaupþings banka og gamla Landsbankans, fyrir samanlagt ríflega 90 milljónir króna.

Vöxtur olíusjóðsins, sem er til húsa á sama stað og Seðlabanki Noregs í miðborg Óslóar, hefur verið ævintýralegur frá stofnun hans árið 1990 og áætlar Financial Times að hlutabréfaeign sjóðsins samsvari því að hann eigi að meðaltali um 1,4 prósenta hlut í hverju einasta skráða fyrirtæki í heiminum.