Ríkissjóður Noregs mun ekki veita flugfélaginu Norwegian frekari fjárstuðning, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá norsku ríkisstjórninni. Ríkissjóður Noregs hefur veitt norska fluggeiranum ýmis konar stuðning á þessu ári, ýmist í formi lána, ábyrgða eða beinna fjárframlaga. Heildarumfang stuðning við norsk flugfélög og rekstrarfélög flugvalla nemur um 14 milljörðum norskra króna á þessu ári, eða sem samsvarar um 210 milljörðum íslenskra króna.

Haft er eftir forstjóra Norwegian að tíðindin séu sem þungt högg í magann: „Ég get ekki ábyrgst það að við lifum af. En ég hef von og trú,“ segir forstjórinn Jacob Schram í samtali við danska ríkisútvarpið DR.

Norwegian óskaði eftir frekari aðstoð á dögunum, en í áðurnefndri fréttatilkynningu kom fram að beiðnin hljóðaði upp á nokkra milljarða norskra króna. „Ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að það sé ekki góð notkun á almannafé,“ er haft eftir Iselin Nybø, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Norwegian hugðist hefja flug til og frá Íslandi á yfirstandandi hausti, en lítið hefur orðið af því enn sem komið er. Hins vegar er ennþá hægt að kaupa flugför af félaginu til og frá Íslandi, en þó ekki fyrr en í ferðir í febrúar næstkomandi.