Norræna streymisveitan Viaplay mun bjóða þjónustu sína frá 1. apríl. „Við munum bjóða áhorfendum á Íslandi meira hágæða norrænt myndefni en nokkur annar. Auk verðlaunakvikmynda, þáttaraða, barnaefnis og beinna útsendinga frá íþróttum í heimsklassa,” segir Anders Jensen, forstjóri Nordic Entertainment Group, sem rekur streymisveituna, í tilkynningu.

Allt Viaplay myndefni og barnaefni mun vera með íslenskum texta eða tali og völdu íþróttaefni verður lýst á íslensku. Viaplay þáttaraða- og kvikmyndapakkinn mun kosta fjórar evrur eða 599 krónur á mánuði á Íslandi. Um mánaðarmótin verður sjónvarpsefni Viaplay aðgengilegt á öllum Norðurlöndunum.

Á meðal íþróttaefnis sem boðið verður upp á þegar íþróttir hefjast á nýjan leik eftir að komið verður böndum á kórónaveiruna er Formúlu 1, fótbolti og handbolti þýsku atvinnudeildarinnar, WTA tennis, bandarískur hafnabolti, NASCAR og knattspyrna frá Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Suður-Ameríski bikarinn 2021 og margt fleira.

Fram kemur í tilkynningu að markaðshlutdeild Viaplay á hinum Norðurlöndunum sé um 25-30 prósent og að áskrifendum hafi fjölgað um fjórðung í fyrra í 1,6 milljónir.