Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir hækkun vaxta hafa verið 0,75 prósent vegna árangurs fyrri aðgerða á árinu. Þetta sagði Ásgeir á kynningu í Seðlabankanum í morgun þar sem farið var yfir yfirlýsingu og ákvörðun peningastefnunefndarinnar.
Spurð út í ákvörðun sína og hvað hélt aftur af þeim að fara hærra sagði Ásgeir að 75 punkta hækkun væri mikil hækkun. Hann benti á að það hefði verið hækkað tvisvar í sumar um eitt prósent
„Normið um það hvað er mikil hækkun og lítil hækkun hefur hliðrast til,“ sagði hann og að það væri merki um árangur og að fasteignamarkaður væri að kólna. Það væru einnig áhrif á skuldabréfamarkaði sem mætti rekja til hækkana í sumar.
„Þær aðgerðir sem við fórum í eru að skila árangri,“ sagði hann og að þess vegna hefði ekki verið talið nauðsynlegt að hækka um eitt prósent eins og var gert í sumar.
Hann sagði stöðuna öðruvísi á Íslandi því hagvaxtarhorfurnar væri batnandi hér en það væri ekki staðan erlendis þar sem jafnvel væri verið að spá kreppu
„Jákvæðar fréttir verða alltaf neikvæðar hjá okkur,“ sagði Ásgeir
Hann sagði að þeir þættir sem við vorum að eiga við eins og erlend verðbólga og húsnæðismarkarðinn séu að breytast og á sama tíma væru betri hagvaxtarhorfur.
„Það er miklu meiri þensla á vinnumarkaði og þetta er að ganga miklu betur,“ sagði Ásgeir og að við þessar aðstæður hefði hann talið 0,75 prósentustig nægjanlega hækkun.
Áréttað var á fundinum að þau myndu hittast aftur eftir mánuð og að þau vonist til þess að sjá skýrari mynd í október.
Ásgeir byrjaði kynningu í Seðlabanka á því að fara yfir tilkynningu peningastefnunefndarinnar en þar kom fram að samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt sé í ágústhefti Peningamála séu horfur á tæplega sex prósenta hagvexti í ár sem sé 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð hafi verið í maí. Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að það stafi einkum af þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu.
Í tilkynningu Seðlabankans í morgun kom einnig fram að á sama tíma hafa verðbólguhorfur áfram versnað. Verðbólga jókst í júlí og mældist 9,9 prósent. Gert er ráð fyrir að hún nái hámarki undir lok ársins í tæplega 11 prósentustigum. Verri verðbólguhorfur endurspegla kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði auk meiri alþjóðlegrar verðbólgu. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað enn frekar á flesta mælikvarða.
Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Mikill skortur á vinnuafli
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans tók við af Ásgeiri á kynningunni í morgun og fór yfir stöðuna. Hann sagði vinnumarkaðinn sterkan og að það væri mikill skortur á vinnuafli en að það væri mikil óvissa í efnahagsmálum, bæði hér og alþjóðlega.
Hann fór í fyrsta yfir stöðuna erlendis og sagði áhrif stríðsins í Úkraínu enn mikla og hækkun á hrávöru en auk þess hafi áhrif faraldurs í Kína í vor enn áhrif.
Hann sagði hækkanir á hrávöru vera að gefa eftir og að framleiðsluhnökrar í kjölfar heimfaraldurs væru að lagast og nefndi sem dæmi verð á gámum sem hækkaði mikið í Covid en að það væri að fara lækkandi þó enn væri það hærra en fyrir faraldur. Það sama megi segja um hráolíu en að verð á jarðgasi hafi hækkað og fari enn hækkandi og það megi rekja til innrásarinnar í Úkraínu.
„Innlendur þjóðarbúskapur virðist vera að standa þetta ágætlega af sér,“ sagði Þórarinn og að hagvöxtur hefði ekki verið hærri á fyrsta ársfjórðungi frá 2016. Hann sagði vísbendingar um að krafturinn hafi haldið áfram á öðrum ársfjórðungi.

Heimilin ganga hraðar á sparnað en spáð var
Ferðamönnum hafi fjölgað hratt, jafnvel hraðar en búist var við og að einkaneysla sé mikil. Hann sagði útlit fyrir að fjölgun ferðamanna myndi halda áfram og yrði líklega 1,7 milljón á þessu ári í stað 1,4 milljónar sem hafði verið spáð.
Hann sagði gætu verið blikur á lofti hvað varðar einkaneyslu þegar líður á árið og að vegna kröftugrar einkaneyslu á fyrri part árs yrði heildartalan sjö prósent en ekki þrjú prósent eins og hafði verið spáð.
Hvað varðar vinnumarkað sagði Þórarinn að merki væri um að hann væri að ofhitna og að í fyrsta sinn síðan 2019 væri vinnuvikan að lengjast vegna skorts á vinnuafli. Hann sagði einnig lausum störfum fjölga hratt og að þau væru um tólf þúsund núna og að 54 prósent fyrirtækja segja að þeim vanti starfsfólk.
Mesta aukning frá upphafi mælinga var á aðfluttu erlendu vinnuafli en það má rekja til mikils skorts á vinnuafli.
Hann sagði útlit fyrir það að heimilin væru að ganga hraðar en áætlað var á þann sparnað sem fólk náði að safna í heimsfaraldri.
Þórarinn sagði hærri verðbólgu mælikvarða á það að hagkerfið væri að starfa umfram afköst en hún mælist nú 9,9 prósent sem er mesta verðbólga sem hefur mælst frá því 2009. Verðbólga án húsnæðis er 7,5 prósent og hefur ekki verið hærri frá apríl 2010.

Merki um að við séum að ná hápunkti
Hann fór yfir þá undirliði sem leiða til verðbólgunnar en þar er húsnæðisliðurinn áberandi og innlendar vörur.
Þórarinn sagði merki um að við værum að ná hápunkti og að alþjóðleg verðbólga sé í fjögurra áratuga hámarki. Meðaltal í okkar viðskiptalöndum er 8,3 prósent. Í heimsfaraldri var drifkrafturinn vöruverð en nú tikki þjónustuverð stöðugt upp.
Þórarinn sagði væntingar um hærri verðbólgu áhyggjuefni og en væntingar eru um að hún verði að meðaltali fimm prósent næstu fimm árin. Hann sagði áhyggjuefni hversu mörg heimili telja verðbólgu verða yfir fimm prósent næstu fimm árin en 90 prósent svarenda í könnun telja það stöðuna.
Verðbólguspáin er núna þannig á Íslandi að hún verði 10,8 prósent við lok árs og verði ekki lægri en fjögur prósent fyrr en árið 2024.

Fundurinn var í beinni og er hægt að horfa á hann hér að neðan en hann stendur enn þegar fréttin er birt.
Vefútsending hefst nú klukkan 09:30 þar sem fjallað verður um yfirlýsingu peningastefnunefndar og efni Peningamála. Útsendinguna má nálgast hér: https://t.co/nFmBInDiY0 pic.twitter.com/qfga7SYSUr
— Seðlabanki Íslands (@sedlabanki_is) August 24, 2022