Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri segir hækkun vaxta hafa verið 0,75 prósent vegna árangurs fyrri aðgerða á árinu. Þetta sagði Ásgeir á kynningu í Seðlabankanum í morgun þar sem farið var yfir yfirlýsingu og ákvörðun peningastefnunefndarinnar.

Spurð út í á­kvörðun sína og hvað hélt aftur af þeim að fara hærra sagði Ás­geir að 75 punkta hækkun væri mikil hækkun. Hann benti á að það hefði verið hækkað tvisvar í sumar um eitt prósent

„Normið um það hvað er mikil hækkun og lítil hækkun hefur hliðrast til,“ sagði hann og að það væri merki um árangur og að fast­eigna­markaður væri að kólna. Það væru einnig á­hrif á skulda­bréfa­markaði sem mætti rekja til hækkana í sumar.

„Þær að­gerðir sem við fórum í eru að skila árangri,“ sagði hann og að þess vegna hefði ekki verið talið nauð­syn­legt að hækka um eitt prósent eins og var gert í sumar.

Hann sagði stöðuna öðru­vísi á Ís­landi því hag­vaxtar­horfurnar væri batnandi hér en það væri ekki staðan er­lendis þar sem jafn­vel væri verið að spá kreppu

„Já­kvæðar fréttir verða alltaf nei­kvæðar hjá okkur,“ sagði Ás­geir

Hann sagði að þeir þættir sem við vorum að eiga við eins og er­lend verð­bólga og hús­næðis­markarðinn séu að breytast og á sama tíma væru betri hag­vaxtar­horfur.

„Það er miklu meiri þensla á vinnu­markaði og þetta er að ganga miklu betur,“ sagði Ás­geir og að við þessar að­stæður hefði hann talið 0,75 prósentu­stig nægjan­lega hækkun.

Á­réttað var á fundinum að þau myndu hittast aftur eftir mánuð og að þau vonist til þess að sjá skýrari mynd í októ­ber.

Ásgeir byrjaði kynningu í Seðlabanka á því að fara yfir til­kynningu peninga­stefnu­nefndarinnar en þar kom fram að sam­kvæmt upp­færðri þjóð­hags­spá Seðla­bankans sem birt sé í ágúst­hefti Peninga­mála séu horfur á tæp­lega sex prósenta hag­vexti í ár sem sé 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð hafi verið í maí. Í til­kynningu Seðla­bankans kemur fram að það stafi einkum af þrótt­meiri einka­neyslu og hraðari bata í ferða­þjónustu.

Í til­kynningu Seðla­bankans í morgun kom einnig fram að á sama tíma hafa verð­bólgu­horfur á­fram versnað. Verð­bólga jókst í júlí og mældist 9,9 prósent. Gert er ráð fyrir að hún nái há­marki undir lok ársins í tæp­lega 11 prósentu­stigum. Verri verð­bólgu­horfur endur­spegla kröftugri um­svif í þjóðar­bú­skapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrá­látari hækkanir á hús­næðis­markaði auk meiri al­þjóð­legrar verð­bólgu. Þá hafa verð­bólgu­væntingar hækkað enn frekar á flesta mæli­kvarða.

Peninga­stefnu­nefnd telur lík­legt að herða þurfi taum­hald peninga­stefnunnar enn frekar til að tryggja að verð­bólga hjaðni í mark­mið innan á­sættan­legs tíma. Peninga­stefnan mun á næstunni ráðast af þróun efna­hags­um­svifa, verð­bólgu og verð­bólgu­væntinga. Á­kvarðanir í at­vinnu­lífi, á vinnu­markaði og í ríkis­fjár­málum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Þórarinn G. Péturs­son aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans
Skjáskot/Vimeo

Mikill skortur á vinnuafli

Þórarinn G. Péturs­son aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans tók við af Ás­geiri á kynningunni í morgun og fór yfir stöðuna. Hann sagði vinnu­markaðinn sterkan og að það væri mikill skortur á vinnu­afli en að það væri mikil ó­vissa í efna­hags­málum, bæði hér og al­þjóð­lega.

Hann fór í fyrsta yfir stöðuna er­lendis og sagði á­hrif stríðsins í Úkraínu enn mikla og hækkun á hrá­vöru en auk þess hafi á­hrif far­aldurs í Kína í vor enn á­hrif.

Hann sagði hækkanir á hrá­vöru vera að gefa eftir og að fram­leiðslu­hnökrar í kjöl­far heim­far­aldurs væru að lagast og nefndi sem dæmi verð á gámum sem hækkaði mikið í Co­vid en að það væri að fara lækkandi þó enn væri það hærra en fyrir far­aldur. Það sama megi segja um hrá­olíu en að verð á jarð­gasi hafi hækkað og fari enn hækkandi og það megi rekja til inn­rásarinnar í Úkraínu.

„Inn­lendur þjóðar­bú­skapur virðist vera að standa þetta á­gæt­lega af sér,“ sagði Þórarinn og að hag­vöxtur hefði ekki verið hærri á fyrsta árs­fjórðungi frá 2016. Hann sagði vís­bendingar um að krafturinn hafi haldið á­fram á öðrum árs­fjórðungi.

Mynd af kynningunni þar sem farið var yfir þróun hrávöruverðs.
Mynd/Seðlabankinn

Heimilin ganga hraðar á sparnað en spáð var

Ferða­mönnum hafi fjölgað hratt, jafn­vel hraðar en búist var við og að einka­neysla sé mikil. Hann sagði út­lit fyrir að fjölgun ferða­manna myndi halda á­fram og yrði lík­lega 1,7 milljón á þessu ári í stað 1,4 milljónar sem hafði verið spáð.

Hann sagði gætu verið blikur á lofti hvað varðar einka­neyslu þegar líður á árið og að vegna kröftugrar einka­neyslu á fyrri part árs yrði heildar­talan sjö prósent en ekki þrjú prósent eins og hafði verið spáð.

Hvað varðar vinnu­markað sagði Þórarinn að merki væri um að hann væri að of­hitna og að í fyrsta sinn síðan 2019 væri vinnu­vikan að lengjast vegna skorts á vinnu­afli. Hann sagði einnig lausum störfum fjölga hratt og að þau væru um tólf þúsund núna og að 54 prósent fyrir­tækja segja að þeim vanti starfs­fólk.

Mesta aukning frá upp­hafi mælinga var á að­fluttu er­lendu vinnu­afli en það má rekja til mikils skorts á vinnu­afli.

Hann sagði út­lit fyrir það að heimilin væru að ganga hraðar en á­ætlað var á þann sparnað sem fólk náði að safna í heims­far­aldri.

Þórarinn sagði hærri verð­bólgu mæli­kvarða á það að hag­kerfið væri að starfa um­fram af­köst en hún mælist nú 9,9 prósent sem er mesta verð­bólga sem hefur mælst frá því 2009. Verð­bólga án hús­næðis er 7,5 prósent og hefur ekki verið hærri frá apríl 2010.

Mynd af kynningunni þar sem farið er yfir undirliði verðbólgunnar.
Mynd/Seðlabankinn

Merki um að við séum að ná hápunkti

Hann fór yfir þá undir­liði sem leiða til verð­bólgunnar en þar er hús­næðis­liðurinn á­berandi og inn­lendar vörur.

Þórarinn sagði merki um að við værum að ná há­punkti og að al­þjóð­leg verð­bólga sé í fjögurra ára­tuga há­marki. Meðal­tal í okkar við­skipta­löndum er 8,3 prósent. Í heims­far­aldri var drif­krafturinn vöru­verð en nú tikki þjónustu­verð stöðugt upp.

Þórarinn sagði væntingar um hærri verð­bólgu á­hyggju­efni og en væntingar eru um að hún verði að meðal­tali fimm prósent næstu fimm árin. Hann sagði á­hyggju­efni hversu mörg heimili telja verð­bólgu verða yfir fimm prósent næstu fimm árin en 90 prósent svar­enda í könnun telja það stöðuna.

Verð­bólgu­spáin er núna þannig á Ís­landi að hún verði 10,8 prósent við lok árs og verði ekki lægri en fjögur prósent fyrr en árið 2024.

Mynd af kynningunni þar sem farið er yfir horfur á hagvexti.
Mynd/Seðlabankinn

Fundurinn var í beinni og er hægt að horfa á hann hér að neðan en hann stendur enn þegar fréttin er birt.