Norlandair ehf. hefur skrifað undir samning við grænlensku heimastjórnina um flug frá Íslandi til Nerlerit Inaat (Scoresbysund) tvisvar í viku. Samningurinn er til 6 ára en verður framlengjanlegur um fjögur ár á þeim tímapunkti.

Samningurinn nær til 104 fluga á ári, þar af 24 flugum frá Reykjavík en 80 frá Akureyri.

Norlandair hefur þjónustað íbúa á austurströnd Grænlands um áratuga skeið, auk þess að fljúga fyrir alþjóðlegar rannsóknastofnanir og erlend ríki, s.s. danska herinn. Undanfarin ár hefur félagið haldið uppi áætlunarflugi tvisvar í viku frá Akureyri. Með nýja samningnum verður nú einnig flogið frá Reykjavík.

„Við erum stolt og ánægð yfir þessu mikla trausti og hlökkum til framhaldsins. Samstarf Norlandair og heimastjórnarinnar á sér djúpar rætur og hefur ávallt verið farsælt. Við hlökkum til að takast á við næstu ár. Við munum sinna þessu flugi með DHC-6 Twin Otter og B200 King Air, ásamt DASH-8 flugvél sem til stendur að innleiða. Breidd flugvélaflotans og sérhæfð þjálfun flugmanna gerir okkur kleyft að fljúga við mjög krefjandi aðstæður og þjónusta þetta harðbýla svæði á öruggan hátt,“ segir í tilkynningu frá Norlandair.