Norska fé­lagið Orkla ASA hefur komist að sam­komu­lagi um kaup á öllu hluta­fé í sæl­gætis­fram­leiðandanum Nóa Síríus hf. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Nóa.

Orkla hefur verið 20% hlut­hafi í Nóa Síríus undan­farin tvö ár en fyrir­liggjandi sam­komu­lag felst í kaupum á hlutum annarra hlut­hafa. Aðilar hafa komið sér saman um að gefa ekki upp kaup­verð við­skiptanna. Fjár­mála­ráð­gjöf Deloitte hafði um­sjón með ferlinu og var ráð­gjafi selj­enda. Kaupin eru háð sam­þykki Sam­keppnis­eftir­litsins.

Í tengslum við þessi við­skipti, hefur Finnur Geirs­son for­stjóri Nóa Síríus, óskað eftir að láta af störfum eftir 31 ár sem for­stjóri fé­lagsins. Finnur mun þó halda á­fram sem for­stjóri fé­lagsins til 1. ágúst næst­komandi, þegar Lasse Ruud-Han­sen mun taka við stöðunni en hann hefur víð­tæka reynslu innan FMCG iðnaðarins og var síðast SVP Business De­velop­ment hjá Orkla Consu­mer & Financial Invest­ments.

Orkla er leiðandi fyrir­tæki á neyt­enda­vöru­markaði á Norður­löndunum, Eystra­salts­ríkjunum og völdum mörkuðum í Mið-Evrópu og á Ind­landi. Orkla er skráð á hluta­bréfa­markað í Noregi og eru höfuð­stöðvar fyrir­tækisins í Osló. Velta fé­lagsins árið 2020 var um 47 milljarður norskra króna og eru starfs­menn fé­lagsins yfir 21 þúsund talsins.

„Nói Síríus hefur sér­stöðu á Ís­landi sem fellur vel að eigna­safni Orkla af leiðandi vöru­merkjum. Við sjáum mögu­leika á að skapa verð­mæti með því að halda á­fram að byggja á sterkri stöðu Nóa Síríus á Ís­landi, en jafn­framt auka vöru­úr­valið. Súkku­laði, snakk og sæl­gæti eru kjarna­flokkar fyrir Orkla. Ís­land er vaxtar­markaður og við ætlum að vera hluti af þeim vexti,“ er haft eftir Jaan Ivar Semlitsh, for­stjóra Orklu í til­kynningunni.

Finnur Geirs­son, frá­farandi for­stjóri Nóa, segist stoltur af því að hafa byggt upp frá­bært fyrir­tæki á­samt fram­úr­skarandi sam­starfs­fólki.

„Þegar eitt stærsta fyrir­tæki Norður­landanna á þessu sviði sýnir fyrir­tækinu jafn mikinn á­huga og raun ber vitni, fyrst sem minni­hlut­hafi og í kjöl­farið með nú­verandi sam­komu­lagi, er það skýr vitnis­burður um ein­stakan árangur. Við erum jafn­framt á­nægð með kaupandann, sem er öflugur aðili með víð­tæka þekkingu á starf­semi af þessu tagi, og teljum við að Nói Síríus verði í góðum höndum með Orkla. Fyrir þeim vakir að hlúa að okkar á­gætu vöru­merkjum sem hafa unnið sér hylli á löngum ferli fyrir­tækisins.“