Veitingastaðurinn Nonnabiti lokar í miðbænum og hefur eigandinn selt eignina. Nonnabiti verður þó áfram starfandi í Bæjarlind 14-16 í Kópavogi. Þetta kemur fram á Facebook síðu Nonnabita.

„Af því tilefni viljum við þakka ykkur viðskiptin og komurnar síðastliðin 27 ár,“ segir á Facebook síðu Nonnabita.

Íslendingar munu eflaust syrgja lokunina en einn uppáhalds skyndibitastaður Íslendinga hefur verið staðsettur í miðbænum í 27 ár samfleytt, síðustu ár á Hafnarstræti 9, fyrir utan tímabundna lokun síðastliðið sumar. Hróður bátabúllunnar hefur farið víða og margir geta vart hugsað sér að fara í bæinn um helgar án þess að enda kvöldið á Nonnabita og er sósan án efa helsta sérstaða Nonnabita.

Nonnabiti er í eigu Jóns Guðnasonar (Nonna) og Bjarkar Þorleifsdóttur en þau opnuðu staðinn í október árið 1993.

Eigendur Nonnabita Jón Guðnason og Björk Þorleifsdóttir árið 2005
Valgarður Gíslason

Björk Þorleifsdóttir sagði í samtali við Fréttablaðið árið 2005 að að gæði bátanna hafi spurst manna á milli og sá orðrómur hafi náð langt út fyrir landsteinana. „Hingað kom eitt sinn maður frá Bretlandi sem keypti alla bátana af matseðlinum og fór síðan heim samdægurs.“