Bankasýsla ríkisins hefur gengið frá ráðningu á níu söluráðgjöfum til viðbótar vegna sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað um mitt þetta ár.

Þar af eru sjö innlendir bankar og verðbréfafyrirtæki en það eru Arion banki, Arctica Finance, Fossar markaðir, Íslensk verðbréf, Íslenskir fjárfestar, Kvika banki og Landsbankinn.

Þá munu Barclays Bank Ireland og HSBC Continental Europe einnig vera í hlutverki söluráðgjafa.

Voru félögin valin úr hópi 24 aðila sem skiluðu inn áhugayfirlýsingum til að verða söluráðgjafar. Ekki er áforma að ráða fleiri ráðgjafa vegna söluferlisins á Íslandsbanka.

Áformað er að selja á bilinu 25 til 35 prósenta hlut í Íslandsbanka í gegnum útboð og skráningu á markað um mitt þetta ár. Bókfært eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum í árslok 2020.

Kynningarfundir með innlendum fjárfestum, meðal annars lífeyrissjóðum og sjóðastýringarfyrirtækjum, hófust í byrjun síðustu viku.

Áður hefur Markaðurinn greint frá því að hollenski bankinn ABN Amro væri stjórnendum Íslandsbanka til ráðgjafar við söluna. Bankasýslan, sem heldur utan um eignarhlut ríkisins í bankanum, réð hins vegar STJ Advisors sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna hlutafjárútboðsins auk þess sem Citigroup, JP Morgan og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru ráðnir sem leiðandi umsjónaraðilar og söluráðgjafar.