Framleiðslufyrirtæki þurfa að bregðast við áskorunum og krefjandi starfsumhverfi á árinu 2020 sem verður ár hagræðingaraðgerða. Þetta má lesa úr niðurstöðum könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins. Allir stjórnendur stórra og meðalstórra fyrirtækja segjast ætla að ráðast í hagræðingaraðgerðir á árinu, og 88 prósent svarenda segja mjög líklegt eða frekar líklegt að gripið verði til slíkra aðgerða.

Í könnuninni voru stjórnendur framleiðslufyrirtækjanna beðnir um að meta helstu áskoranir í þeirra rekstri og var launakostnaður sú áskorun sem flestir stjórnendanna sögðu vera mjög mikla um þessar mundir.

Niðurstöður fyrir launakostnað eru sagðar benda til þess að framhald verði á þeirri þróun í atvinnu sem þegar er hafin en launþegum í framleiðsluiðnaði hefur fækkað undanfarið. Fækkunin var komin í fjögur prósent í október í fyrra.

hordur.jpg

„Launahækkanir síðustu kjarasamninga eru ekki í neinum takti við getu íslensks framleiðsluiðnaðar. Samkeppnisstaða gagnvart innfluttri vöru versnar enn frekar,“ hafa samtökin eftir einum stjórnanda og annar talar á svipuðum nótum:

„Launakostnaður mjög þungur. Launahlutfall miðað við veltu orðið hærra en við höfum séð áður. Erfitt að hækka verð til að mæta auknum kostnaði.“

Samtök iðnaðarins segja afstöðu stjórnenda koma heima og saman við að laun á vinnustund hér á landi séu nú með þeim hæstu á meðal iðnvæddra ríkja. Raungengi krónunnar á mælikvarða launa standi sögulega hátt um þessar mundir og samkeppnisstaða gagnvart erlendum keppinautum sé veik með tilliti til launakostnaðar. Þá séu fyrirtækin að takast á við þessa stöðu á sama tíma og samdráttur er víða í eftirspurn, til dæmis á innlendum markaði.

Næstmesta áskorunin var skattar og gjöld hér á landi. Samtökin segja það ekki koma á óvart þar sem skattheimta á íslensk fyrirtæki sé há í alþjóðlegum samanburði. Skattahækkanir eftir efnahagsáfallið 2008 hafi að stórum hluta fest sig í sessi.

Í þessu samhengi nefna samtökin hátt tryggingagjald sem eykur launakostnað fyrirtækja og dregur úr afli þeirra til að ráða starfsmenn. Auk þess séu fasteignaskattar á fyrirtæki hér á landi háir í alþjóðlegum samanburði.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann hvatti hið opinbera til að milda niðursveifluna með nauðsynlegum og arðbærum innviðafjárfestingum.

„ Ef vel á að vera þarf að tilkynna um slíkar fjárfestingar á næstu vikum. Af nægu er að taka enda er mikil uppsöfnuð þörf fyrir styrkingu innviða um allt land,“ skrifaði Sigurður.