Ýmsir virðast telja að í stjórn Icelandair sitji ekki rétta fólkið og innan hennar sé lítil flugkunnátta. Það er ekki rétt. Við John F. Thomas höfum alla okkar starfsævi starfað í flugi. Þetta segir Nina Jonsson, stjórnarmaður í Icelandair. Aðalfundur Icelandair verður haldinn í dag en átta manns bjóða fram krafta sína í fimm manna stjórn.

Nina starfar er ráðgjafi hjá Plane View Partners sem er sérhæft í ráðgjöf til fyrirtækja í flugiðnaði. Áður stýrði hún flotamálum hjá Air France-KLM Group og hefur gegnt stjórnendastöðum hjá United Airlines og US Airways. Hún er auk MBA gráðu með BS próf í flugrekstri.

Thomas er ráðgjafi hjá McKinsey & Co. og var áður forstjóri Virgin Australia Airlines.

„Mér þykir samsetning stjórnar Icelandair reglulega góð,“ segir hún í samtali við Markaðinn.

Nina sér mikil tækifæri fyrir Icelandair að vaxa í ljósi þess að stór flugfélög hafi ekki burði til að fljúga á minni markaði á næstu árum.

Að sama skapi hafi hún ekki áttað sig á að stjórnarmenn Icelandair væru einungis kosnir til eins árs í senn. Það tíðkist ekki hjá öðrum flugfélögum og leiðir til þess að ákvarðanir stjórnar séu skammsýnni því stjórnarmenn muni ekki fylgja verkefnum úr hlaði.

Nýleg stjórn

Nina bendir á að á einu til þremur árum hafi allir stjórnarmenn nema einn gengið til liðs við stjórn Icelandair. Hún, sem var kosin í stjórnina rétt áður COVID-19 brast á, verði þess áskynja að margir hér á landi telji að stjórnin hafi setið lengi og því sé breytinga þörf. Það sé ekki rétt.

Nina Jonsson, stjórnarmaður í Icelandair Group og ráðgjafi hjá Plane View Partners. Hún hefur starfað sem stjórnandi hjá Air France-KLM Group, United Airlines og US Airways.
Mynd/Aðsend

Nina, sem upphaflega var gefið nafnið Jónína Ósk Sigurðardóttir en hefur búið erlendis alla ævi, segir mikilvægt að stjórn flugfélaga sé ekki einvörðungu skipuð vönu fólki úr flugheiminum. Mikilvægt sé að önnur sjónarmið, byggt á sérþekkingu frá öðrum atvinnugreinum, séu viðruð á stjórnarfundum. Það þurfi góðar hugmyndir um hvernig megi gera ýmislegt á annan hátt en ekki miða allt við hvernig hinu og þessu hafi verið háttað á Íslandi eða almennt hjá flugfélögum.

Svafa Grönfeldt, stjórnarmaður Icelandair Group.

Nina segir að Svafa Grönfeldt, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og aðstoðarforstjóri Actavis Group, hafi djúpa þekkingu á stefnumótun og skipulagi og Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant, hafi mikla þekkingu á tæknimálum og upplifun viðskiptavina af tækninotkun. „Appið okkar er ekki nógu gott, við þurfum að bæta úr því,“ segir hún.

Úlfar er strengurinn

Að hennar sögn njóti stjórnin góðs af því hve lengi Úlfar Steindórsson stjórnarformaður hafi setið í stjórninni. „Hann er strengurinn síðastliðin ellefu ár. Margt hefur breyst í rekstrinum á þeim tíma en hann þekkir samhengið, hvað hefur verið gert áður og veit því hvaða ber að varast í framtíðinni. Mér þykir samsetning stjórnarinnar afar góð og vil helst engu breyta. Sérstaklega ekki í þessari krísu. Venjulega funda stjórnir sex sinnum á ári. Við höfum verið í daglegu sambandi og fundað 50 sinnum síðastliðið ár til að bjarga málum í COVID-19,“ segir hún og bætir við að stjórnin gæti þess að ákvarðanir sem teknar séu á erfiðum tímum hafi ekki slæm áhrif á reksturinn þegar fram í sækir.

Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarmaður Icelandair Group.
Fréttablaðið/Ernir

„Það verður flugfélögum að falli að einblína á að lifa af til skamms tíma í stað þess að móta stefnu til langs tíma. Við höfum mótað stefnuna svo Icelandair geti vaxið til lengri tíma,“ segir Nína.

Fram kom í Viðskiptablaðinu að þó nokkur endurnýjan hafi verið í stjórn Icelandair á undanförnum ári. Á hverju ári frá árinu 2017 hafi verið endurnýjun í stjórninni, einn eða tveir komið nýir inn. Úlfar sé sá eini sem hafi setið lengur en frá árinu 2017. Hann kom í stjórnina árið 2010.

Nýlegt stjórnendateymi

Nina segir að margir virðist ekki átta sig á að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og hans nýja stjórnendateymi hafi einungis tekið við um ári áður en COVID-19 heimsfaraldurinn skall á. Teyminu hafi tekist að innleiða mikilvægar breytingar á rekstrinum á árinu 2019 og að fyrirtækið hafi verið búið að rétta sig af eftir erfiðleika þegar COVID-19 breiddi úr sér yfir heiminn.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group.

Önnur flugfélög fengu ríkislán

„Ólíkt flestum öðrum stórum flugfélögum fékk Icelandair ekki fé frá stjórnvöldum, einungis ríkisábyrgð á lánalínu sem ekki hefur verið dregið á,“ segir hún nefnir Air France-KLM Group, United, American, Lufthansa í því samhengi.

Erlendu fyrirtækin hafi þurft að leita á náðir ríkisins þrisvar til fjórum sinnum frá því að heimsfaraldurinn hófst. „Allt lán sem greiða þarf til baka. Icelandair er ekki í sömu sporum,“ segir Nina.

Hún segir að stjórnendur Icelandair hafi brugðist við COVID-19 með því að reyna að stöðva reksturinn og halda í reiðufé eins og kostur væri. Á sama tíma hafi flest önnur flugfélög verið í afneitun um alvarleika ástandsins.

„Snilld Boga Nils og Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur fjármálastjóra fólst í því að afla hlutafjár byggt á skynsömum áætlunum um það hvernig megi lifa af erfiðar markaðsaðstæður fram til snemma á næsta ári. Hlutafjáraukningin gekk betur en við létum okkur dreyma um og nú eru hluthafar yfir 14 þúsund. Þeir treystu okkur; stjórninni og stjórnendateyminu,“ segir Nina.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

„Það versta sem hægt er að gera í krísu er að skipta um stjórn og stjórnendur. Flugfélög þurfa stöðugleika að halda við slíkar aðstæður. Stjórnendateymi Icelandair er framúrskarandi og núverandi stjórn ætti að fá að halda áfram að styðja við þá vinnu, ekki einungis til að bjarga félaginu úr erfiðleikum heldur til að styðja við framgang þess til framtíðar,“ segir hún.

„Það versta sem hægt er að gera í krísu er að skipta um stjórn og stjórnendur.“

Eins og fyrr segir kom það Ninu á óvart að stjórn Icelandair væri einungis kosin til eins árs í senn. Það tíðkist ekki hjá alþjóðlegum flugfélögum. „Stjórnarmenn sem kosnir eru til eins árs hafa engan hvata til að til að taka ákvarðanir sem fyrirtækið mun njóta góðs af eftir fimm ár. En venjulega er horft til fimm ára í stefnumótun flugfélaga,“ segir hún.

Að hennar sögn munu nýir stjórnarmenn almennt verja hálfu ári í að kynnast rekstrinum og næsta hálfa árið fer í að horfa á reksturinn til skamms tíma. „Slíkt hefur bitnað á rekstri Icelandair í fortíð,“ segir Nina.

Hún segir að marka þurfi framtíðarstefnu Icelandair til margra ára og að stjórnarmenn þurfi að gegna starfinu þar til framtíðarsýnin hafi raungerst. Það hafi það í för með sér að stjórnarmennirnir beri raunverulega ábyrgð á stefnunni til lengri tíma.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri Icelandair Group.
Mynd/Aðsend

Talið berst að sóknarfærum Icelandair. Nina segir að Icelandair standi frammi fyrir fordæmalausu tækifæri að auka umsvif sín í flugi yfir Atlantshafið. Stór flugfélög hafi losað sig við minni flugvélar sem hafi verið nýttar til að fljúga á minni markaði en þau hafi á undanförnum árum keypt stórar flugvélar sem flugfélögin geti ekki losað sig við. Til að standa undir þeirri fjárfestingu verði flugfélögin að einblína á stærri markaði. „Við erum með gott tækifæri til að auka markaðshlutdeild yfir Atlantashafið,“ segir hún.

Dæmi um minni markaði fyrir bandarísk flugfélög væri að fljúga til Barcelona, Genfar, Manchester, Mílanó og Stokkhólms. „Innan Evrópu eru þetta hins vegar stórir markaðir,“ segir hún. Stórir markaðir væru til dæmis London og París.

„Meira að segja Íslendingar í fluggeiranum héldu fyrst að ég væri sænsk.“

Nina, sem eins og áður segir fékk nafnið Jónína Ósk í vöggugjöf, segir að margir fatti ekki að hún sé íslensk. „Meira að segja Íslendingar í fluggeiranum héldu fyrst að ég væri sænsk. Ég fæddist á Íslandi og foreldrar mínir eru íslenskir. Á þeim tíma bjuggu foreldrar mínir í Lúxemborg. Við flugum strax aftur þangað eftir að ég fæddist. Það gengur ekki að bera nafnið Sigurðardóttir og útskýra í sífellu hvernig það er skrifað í Mið-Evrópu. Pabbi brá því á það ráð að nota Jónsson, sem var hans eftirnafn, sem ættarnafn fjölskyldunnar. Eins var ég kölluð Nína fremur en Jónína,“ segir hún.

Þegar Nina fæddist störfuðu foreldrar hennar hjá Loftleiðum. Móðir hennar var flugfreyja og faðir flugvirki. Síðar kom hann að stofnun Cargolux.