Heildareftirspurn í nýafstöðnu hlutafjárúboði Íslandsbanka, sem lauk á hádegi fyrr í dag, reyndist vera samtals 486 milljarðar króna en að því gefnu að valréttir til að mæta umframeftirspun verði nýttir að fullu mun ríkið fá 55,3 milljarða króna í sinn hlut fyrir 35 prósenta hlut í bankanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem sem barst til Kauphallarinnar fyrr í kvöld um helstu niðurstöður útboðsins. Umframeftirspurn á útboðsgenginu 79 krónur á hlut, sem jafngildir genginu um 0,85 miðað við bókfært eigið fé Íslandsbanka í lok fyrsta ársfjórðungs, reyndist því vera um níföld. Fjöldi hluthafa eftir útboðið verður um 24 þúsund talsins, sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða stærsta frumútboð sem farið hefur fram hér á landi.

Í kjölfar útboðsins mun ríkissjóður fara með 65 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka. Gera má ráð fyrir að aðrir innlendir fjárfestar fari með um 24 prósenta hlut og erlendir fjárfestar með um 11 prósent, að því er segir í tilkynningu um niðurstöðu útboðsins.

Þegar hlutafjárútboðið hófst var greint frá því að tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Managament, og íslensku lífeyrissjóðirnir Gildi og LIVE, yrðu hornsteinsfjárfestar í útboðinu og hefðu skuldbundið sig til að kaupa samanlagt um tíu prósenta hlut í bankanum.

Upplýsingar um úthlutun hluta til fjárfesta verða veittar eigi síðar en á morgun, miðvikudag, en til að stuðla að dreifðu og fjölbreyttu eignarhaldi verða tilboð upp að einni milljóna króna ekki skert.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir söluna ábatasama fyrir ríkisjóð og koma sér vel í þeirri uppbyggingu sem er framundan.
Fréttablaðið/Anton Brink

Áætlað er að fyrsti dagur viðskipta með bréf í bankanum í Kauphöllinni verði 22. júní næstkomandi. Þá hefur ríkissjóður skuldbundið sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í sex mánuði eftir að bréfin verða tekin til viðskipta á markaði.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ánægjulegt að sjá niðurstöðurnar út vel heppnuðu útboði bankans.

„Mikil eftirspurn og þátttaka almennings er sérstaklega ánægjuleg, en hluthafar í Íslandsbanka verða þannig flestir af öllum skráðum félögum á íslenskum markaði. Leiðir þetta ekki síst af þeirri ákvörðun að heimila áskriftir allt niður í 50 þúsund krónur og að láta áskriftir einstaklinga allt að einni milljón króna óskertar.

Salan er ábatasöm fyrir ríkissjóð og kemur sér vel í þeirri uppbyggingu sem framundan er næstu misseri. Mestu skiptir þó að við tökum hér fyrsta skrefið í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri og færumst nær heilbrigðara umhverfi líkt og þekkist á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum okkar.“

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, tekur í sama streng og segir þetta mikilvægan áfanga.

„Vonir standa til þess að þetta mikilvæga fyrsta skref greiði fyrir þeirri stefnu stjórnvalda um að selja allan eignarhlut í bankanum þegar hagfelld og ásættanleg skilyrði eru til staðar.“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem var á útboðinu.
Fréttablaðið/Stefán

Þá segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, niðurstöður útboðsins marka þáttaskil í sögu bankans.

„Það var ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem raungerðist og sýnir hann trú og traust á framtíðarsýn og stefnu Íslandsbanka og þeim tækifærum sem Ísland stendur frammi fyrir. Ég býð nýja hluthafa Íslandsbanka innilega velkomna.“