Opinberir aðilar hafa brugðist við verra efnahagsástandi með því að draga úr fjárfestingu. „Það vekur upp spurningar um framtíðarhorfur,“ sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, á fundi um skýrslu um innviði sem samtökin stóðu að.

Ingólfur sagði að það verði að setja innviðauppbyggingu í forgang til að mæta nýjum áskorunum og tækifærum sem felast í samfélagsbreytingum og efnahagsþróun næstu ára. Fram kemur í skýrslunni að fjárfesting í dag sé hagvöxtur á morgun.

Fjárfesting hins opinbera sem hlutfall af framleiðslu hefur verið undir eða við langtíma meðaltal um nokkurt skeið og fer nú lækkandi. „Þetta gerir það að verkum að ástandið hefur ekki lagast frá því síðast var lagt mat áuppsafnaða þörf í innviðakerfinu árið 2017. Matið á uppsafnaðri viðhaldsþörf innviða hefur hækkað um 2 prósent á föstu verði á tímabilinu frá 2017 og farið úr 14,2 prósent af landsframleiðslu í 14,5 prósent. Má því segja að verkefnið sé viðlíka stórt nú og það var árið 2017,“ segir í skýrslu Samtaka iðnaðarins.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða er áætluð 420 milljarðar króna eða 9,3 prósent af endurstofnvirði innviðanna, samkvæmt skýrslunni. Endustofnvirði merkir hvað það kostar að reisa samskonar innviði að nýju.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, benti á að skýrslan taki eingöngu til uppsafnaðrar viðhaldsþarfar en ekki til nýrra fjárfestinga sem þurfi að ráðast í.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Við þurfum að hugsa út fyrir boxið“

„Við þurfum að hugsa út fyrir boxið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra spurður hvort leita þurfi nýja leiða til að fjármagna innviðaframkvæmdir, og hvort rétt væri að nýta samvinnu einkaaðila og hins opinbera til þess (e. public-private partnership, PPP).

Hann sagði að á teikniborðinu væru samvinnuverkefni fyrir um 100 milljarða.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Dæmigerð uppbygging samvinnuverkefna er á þá vegu að samið er til 20 til 25 ára þar sem andlag framkvæmdanna er að fullu í eigu einkaaðilanna. Þannig er hönnun, framkvæmd, rekstur og viðhald á herðum einkaaðila og að samningstíma loknum er eignin afhent hinu opinbera, ýmist gjaldfrjálst eða gegn fyrir fram ákveðnum skilmálum. Dæmi um slíkan samning eru Hvalfjarðargöngin sem afhent voru ríkinu skuldlaust árið 2018, 20 árum eftir opnun ganganna

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hefur sagt að að með samstarfi í innviðauppbyggingu (e. public-private partnership, PPP) geti stjórnvöld veitt minni fjármunum í slík verkefni og við það skapist svigrúm til að bæta í grunnþjónustu og draga úr halla ríkissjóðs. Fram hefur komið í fjölmiðlum að áætlað er að ríkið verði rekið með 320 milljarða króna halla sem rekja má til COVID-19.

Stórt innviðaráðuneyti

Sigurður Ingi sagði að „eina vitið“ væri að innviðir samfélags, eins og húsnæðismál og skipulagsstofnun væri hluti af því, myndu tilheyra sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu. Þannig væri málum háttað til dæmis í Noregi, Danmörku og Finnlandi. Slíkar breytingar þurfi að ákveða við upphaf ríkisstjórnarsamstarfs í stórnarsáttmála.

Sigurður Hannesson sagði að með þeim hætti mætti búa til stórt innviðaráðuneyti.