Hluthafar Bakka­stakks, sem heldur utan um eignarhlut Íslandsbanka og lífeyrissjóða í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík, hafa ákveðið að færa niður hlutafé og skuldbreyta lánum sínum til félagsins. Niðurfærsla skuldabréfa og hlutafjár nemur alls 11,6 milljörðum króna. Þetta er niðurstaðan eftir fjárhagslega endurskipulagningu Bakkastakks sem var samþykkt á hluthafafundi félagsins um miðjan desember.

Sigurgeir Tryggvason, framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins Summu, sem heldur utan um rekstur Bakkastakks, segir að ráðist hafi verið í skuldbreytingu hjá Bakka­stakki til að endurspegla betur þær breytingar sem hafa orðið á eignahliðinni. Eignir Bakkastakks voru metnar á um 6,8 milljarða í ársreikningi 2019 og eigið fé verulega neikvætt. Mat eigna hefur lækkað 2020 í kjölfar faraldurs, rekstrarerfiðleika og tímabundinnar lokunar.

Aðspurður segir hann að skuldbreytingin hafi engin áhrif á eignarhlut Bakkastakks í kísilverinu, en félagið fer með 13,5 prósenta hlut á móti þýska fyrirtækinu PCC SE, sem á 86,5 prósenta hlut.

Hluthafar og skuldabréfaeigendur Bakkastakks eru þeir sömu, og hlutafjár- og skuldabréfaeign þeirra er í sömu hlutföllum. Auk þess að leggja kísilverinu PCC til hlutafé fyrir um 2,5 milljarða króna á sínum tíma, þá fjárfestu íslensku lífeyrissjóðirnir og Íslandsbanki sömuleiðis í víkjandi, breytanlegu skuldabréfi að fjárhæð 62,5 milljónum dala, jafnvirði rúmlega 8 milljarða króna á núverandi gengi.

Fjárfesting hluthafa Bakkastakks í verkefninu nam því um 10 milljörðum króna. Stærstu hluthafar Bakkastakks eru Íslandsbanki og lífeyrissjóðirnir Gildi, Stapi, Birta og Frjálsi, með samanlagt um 73 prósenta hlut. Í ársreikningum lífeyrissjóðanna fyrir árið 2019 var eignarhlutur þeirra í Bakkastakki færður niður á bilinu 75 til 100 prósent. Skuldabréfin höfðu hins vegar ekki verið færð niður að jafn miklu leyti hjá flestum sjóðum.

Fjárhagsleg endurskipulagning Bakkastakks felur í sér að hlutafé félagsins, tæplega 2,9 milljarðar króna, er lækkað niður í núll til jöfnunar á tapi en uppsafnað og ójafnað tap nam fyrir um 7,5 milljarða króna.

Jafnframt var samþykkt að strax í kjölfar lækkunar skyldi hlutafé félagsins hækkað um 4,5 milljarða króna með útgáfu hluta til eigenda skuldabréfa sem félagið hefur gefið út. Skuldabréfaeigendur Bakka­stakks greiddu fyrir hina nýju hluti með því að breyta kröfum samkvæmt skuldabréfum í hlutafé, að fjárhæð 4,5 milljörðum króna, en hlutafjárhækkunin er jafnframt háð þeirri forsendu að eftirstöðvar skuldabréfanna, 8,7 milljarðar króna verði felldar niður. Uppreiknuð staða skuldabréfanna var samtals 13,2 milljarðar króna.

Tekið saman nemur lækkun á hlutafé og niðurfelling á eftirstöðvum lána frá hluthöfum um 11,6 milljörðum króna. Þess ber að geta að skuldabréfin voru gefin út í Bandaríkjadölum og eru gengistryggð. Uppreiknuð staða veltur því á gengi krónunnar og uppsöfnuðum vöxtum. Á kostnaðarverði voru bréfin færð til bókar á 10,9 milljarða króna.

Langstærsta eign Bakkastakks er víkjandi skuldabréf, gefið út af PCC BakkiSilicon, sem heldur utan um rekstur kísilversins. Á móti var langstærsta skuldbinding Bakka­stakks skuldabréf, sem félagið gaf út til áðurnefndra hluthafa sinna. Gangvirði þessara skuldbindinga, annars vegar kísilversins gagnvart Bakkastakki og hins vegar Bakka­stakks gagnvart hluthöfum sínum, hefur haldist í hendur.

Verðmat rekstrarfélagsins Summu á skuldabréfinu frá kísilverinu hljóðar nú upp á 4,5 milljarða króna samanborið við rúmlega 6 milljarða króna í lok árs 2019 og 9,6 milljarða í lok árs 2018.

Eins og Markaðurinn greindi frá var í gengið frá fjárhagslegri endurskipulagningu kísilversins vorið 2020 í því skyni að bæta slæma lausafjárstöðu þess. Hún fól í sér skilmálabreytingar á skuldbindingum gagnvart Bakkastakki og þá lagði þýska fyrirtækið fram 40 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,6 milljarða króna á þáverandi gengi, í reksturinn í formi hluthafaláns. Aðallánveitandi PCC á Bakka er hins vegar þýski bankinn KfW-IPEX.

Vonast eftir gangsetningu í vor

Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum hafa einkennt starfsemi kísilversins en það var formlega gangsett í maí 2018. Þá hafa vandræði í hreinsivirki verksmiðjunnar valdið því að slökkva hefur þurft á ljósbogaofnum.

Auk þess hafði COVID-19 töluverð áhrif á reksturinn en gripið var til þess að stöðva framleiðslu, víðtækra uppsagna og annarra hagræðingaraðgerða. Um 80 manns var sagt upp síðasta sumar.

Kísilverið hefur nú auglýst eftir fólki til starfa fyrir áætlaða endurræsingu en í dag starfa þar um 50 manns við ýmsar endurbætur. Vonast er til þess að kísilverið verið gangsett á ný í vor.

„Vonir standa þó til að með vorinu munum við bæði sjá fram á lægri framleiðslukostnað sem og betri markaðsaðstæður og miðast nú vinnan á Bakka við að endurræsing verksmiðjunnar hefjist næsta vor,“ sagði félagið í tilkynningu í gær.