Veiking krónunnar hefur stutt við ferðaþjónustuna, en Ísland er ekki lengur dýrasti áfangastaður í heimi, að því er fram kemur í skýrslu greiningardeildar Arion banka um ferðaþjónstuna.

Svo virðist sem allur tekjusamdráttur ársins verði tilkominn vegna farþegaflutninga í flugi, á meðan neysla ferðamanna eykst, þrátt fyrir verulega fækkun ferðamanna. „Hér skiptir gengisveiking krónunnar höfuðmáli, þar sem nokkur samdráttur mælist í neyslu ferðamanna í erlendri mynt. Á öðrum ársfjórðungi jókst neysla á hvern ferðamann um tíu prósent í erlendri mynt og 24 prósent í krónum,“ segir í greiningunni.

Verðlag á Íslandi er hátt, og var það hæsta innan Evrópu árið 2018 þegar það var að meðaltali 56 prósent hærra en í Evrópusambandinu og 44 prósent hærra en í Bandaríkjunum. Eftir veikingu krónunnar, samhliða hóflegri verðbólgu, er orðið ódýrara en áður að dvelja á hér á landi. „Nú má ætla að verðlag á Íslandi sé um 40 prósent hærra en í Evrópusambandinu og 24 prósent hærra en í Bandaríkjunum,“ segir í skýrslunni.

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa hins vegar versnað, þróun sem getur haft áhrif á eftirspurn eftir Íslandsferðum. Hægari heimshagvöxtur hefur áhrif á eftirspurn eftir flugi. Hversu mikil áhrifin verða ræðst að miklu af tekjuteygni farþega. Fari alþjóðlegar efnahagshorfur versnandi gætu erlend flugfélög dregið úr framboði sínu og erlendir ferðamenn skorið ferðalög við nögl, segir greiningardeild Arion banka.

Erlend flugfélög auka framboð sitt um sjö prósent í vetur. Þrettán flugfélög munu bjóða upp á reglulegar áætlunarferðir í vetur, jafn mörg og í fyrra