Verð á silfri hefur hækkað og hefur ekki verið hærra í rúm­lega fimm mánuði, eftir að not­endur á spjall­borðsvefnum Reddit hvöttu aðra not­endur til að kaupa hluti í námu­fyrir­tækjum.

Að því er fram kemur á vef BBC reyna not­endurnir þannig að apa eftir á­hrifunum sem fjölda­kaup smárra fjár­festra á hluta­bréfum í tölvu­leikja­versluninni GameStop hafði á Wall Street verð­bréfa­markaðinn.

Hefur silfur hækkaði um allt að 7% til 28,99 Banda­ríkja­dollara hver únsa, eða því sem nemur rúmum 3700 ís­lenskum krónum. Um er að ræða mestu hækkunina síðan í ágúst en fram kemur að hluta­bréf í smærri námum í Ástralíu hafi aldrei selst jafn hratt.

Hluta­bréfa­kaup net­verja á Reddit hefur vakið heims­at­hygli undan­farna daga. Vogunarsjóðurinn Mel­vin Capi­tal, sem hafði ætlað sér að græða á lækkun hluta­bréfa í GameStop, varð fyrir tekju­falli sem nemur 53% í janúar vegna kaupa net­verjanna, að því er fram kemur í frétt BBC.

Segir þar að net­verjar á Reddit telji að sín besta leið til þess að koma höggi á fjár­mála­kerfið, sé nú með því að snúa sér að silfur­markaðnum. Ekki er þó ein­hugur um á­ætlanirnar og hafa ein­hverjir net­verjar fært fyrir því rök að sömu aflands­sjóðir og ætluðu sér að græða á GameStop geti grætt á silfur­kaupum net­verja nú.

Blaða­maður BBC út­skýrir GameStop málið: