Stafrænar áherslur fyrirtækja og samfélagslegar breytingar vegna COVID-19 hafa stóraukið sölu hjá Origo í gegnum netið eða sem nemur 152 prósentu aukningu milli ára. Mjög mikil aukning varð á netsölu hjá fyrirtækinu síðari hluta ársins eða alls 215 prósent, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu, sem skráð er í Kauphöllina.

„Netverslunin hjá okkur hefur vaxið með hverju árinu sem líður en 2020 markar klárlega tímamót í sölu í gegnum netið. Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með þessa þróun því hún styður við marga þætti í starfsemi Origo,“ segir Sævar Ólafsson, liðsstjóri í stafrænni sölu og þróun hjá Origo, í tölvupósti til Fréttablaðsins.

Sævar segir að starfsemi upplýsingatæknifyrirtækja snerti marga mismunandi þætti samfélagsins svo sem framleiðslu og notkun á búnaði sem og ýmis áhrif vegna mannafla í virðiskeðjunni. Upplýsingatækni geti einnig leikið stórt hlutverk þegar kemur að því að leysa vandamál í umhverfismálum og draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum á samfélagið.

Hann tekur sem dæmi um bætta umhverfisvitund neytenda að ein mest selda stærsta söluvaran til einstaklinga á árinu 2020 hafi verið nýir púðar í QC35 heyrnartól frá Bose.

Sprenging í sölu á fjarvinnubúnaði

Sævar segir að algjör sprenging hafi orðið í sölu á fjarvinnubúnaði ýmis konar á árinu enda vinni margir heima í COVID-19. „Má þar nefna þráðlaus lyklaborð, mýs, netbeinar, tölvuskjáir og vefmyndavélar. Þrátt fyrir mikla sölu í búnaði fyrir heimavinnu voru Lenovo fartölvur langstærsti veltuflokkurinn í sölu yfir netið hjá Origo.“

Hann segir að á meðal nýrra lausna hjá Origo séu snjallbox þar sem viðskiptavinir geti sótt og skilað vöru þegar þeim hentar. „Þeir þurfa því ekkert að fara sérferðir í verslunina, heldur mæta við hentugleika. Þessi lausn hefur reynst okkur afar vel í COVID-ástandinu því fólk hefur ekkert þurft að mæta inn í afgreiðslustaði Origo en getur þess í stað afgreitt sig sjálft í gegnum netið og sótt í snjallboxin að nóttu eða degi. Við höfum afhent hundruð pakka í viku hverri í gegnum boxin okkar og líklega hefur notkunin þrefaldast á einu ári. Ég spái því að árið 2021 verði áfram með samskonar hætti; við munum sjá aukningu á netinu og ýmis konar nýjungar munu leysa gamlar lausnir af hendi undir merkjum nýsköpunar og umhverfisverndar.“

Mestseldu vörurnar í netverslun Origo 2020

Topp 5 á einstaklingsmarkaði

  1. Fartölvur
  2. Sjónvörp
  3. Heyrnartól
  4. Myndavélar
  5. Heimabíó

Topp 5 á fyrirtækjamarkaði

  1. Fartölvur
  2. Tölvuskjáir
  3. Dokkur
  4. Borðtölvur
  5. Heyrnartól