Forsvarsmenn Netflix hyggjast skera upp herör gegn lykilorðadeilingum á streymisveitunni, í kjölfar fregna af því að veitan hefur misst rúmlega tvö hundruð þúsund áskrifendur á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi sagt hluthöfum að tekjur þess hafi lækkað allverulega á fyrsta ársfjórðungi. Telja þeir þar mest um að kenna mikilli leyniorðadeilingu í bland við aukna samkeppni á streymisveitumarkaðnum.
Telur Netflix að í hið minnsta hundrað milljón heimili brjóti gegn reglum streymisveitunnar með því að deila lykilorðum sín á milli. Áður hefur Reed Hastings, forstjóri fyrirtækisins, sagt að slíkar deilingar á milli fjölskyldumeðlima sé óhjákvæmilegur fylgifiskur bransans.
Þá hafa forsvarsmennirnir áður sagst telja að líklega hafi slíkar leyniorðadeilingar orðið til þess auka tekjur fyrirtækisins. Nú virðist stefnan hafa breyst.
„Þegar við uxum hratt, þá var þetta ekki forgangsatriði. Nú hinsvegar munum við vinna ötullega gegn þessu,“ sagði Reed á fundi með hluthöfum.
Fyrirtækið hefur hafist handa við að prófa nýjar reglur í Suður-Ameríku sem sporna eiga gegn leyniorðadeilingum. Hlutabréfavirði fyrirtækisins féll um 25 prósent þegar tíðindin voru tilkynnt en streymisveitan er enn sú langstærsta í heiminum, með fleiri en 220 milljón áskrifendur.