Á tímabilinu apríl til júlí á þessu ári missti Netflix um milljón áskrifendur. Stjórnendur Netflix höfðu búist við að fleiri myndu hætta sem áskrifendur en segja að þættirnir Stranger Things hafi bjargað þeim fyrir horn.
Í apríl á þessu ári greindi streymisveitan frá því að í fyrsta skiptið frá árinu 2011 hefðu áskrifendafjöldinn lækkað. Í kjölfar þess var hundruðum sagt upp og hlutabréf í fyrirtækinu snarlækkuðu.
Fækkun áskrifenda hefur ekki verið svona mikil frá stofnun fyrirtækisins. Flestir þeirra sem sögðu áskrift sinni upp eru frá Norður Ameríku en Evrópa fylgir eftir þeim.
Guy Bisson, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Ampere Analysis, segir í samtali við BBC að það hafa verið óumflýjanlegt að Netflix myndi á einhverjum tímapunkti byrja að tapa áskrifendum. Grip þeirra á streymisveitumarkaðinum hefur verið að veikjast á síðustu misserum. Fjöldi nýrra streymisveita hefur verið að skora á Netflix með lægra verði og fjölbreyttara efni.
„Þegar þú ert leiðtogi í einhverju er bara ein leið fram á við, sérstaklega þegar fjölga fer í samkeppninni. Netflix hefur séð það á síðustu árum,“ sagði hann.
Seint á síðasta ári hækkaði verðið hjá Netflix. Grunnáskriftin hækkaði ekki en allar aðrar áskriftarleiðir hækkuðu samt sem áður. Á Íslandi kostar ódýrasta áskriftarleiðin í dag rétt undir 1.200 krónur en sú dýrasta er um 2.500 krónur.
Bisson segir verðhækkanir auðvitað geta hrakið áskrifendur í burtu. „Þau munu á einhverjum tímapunkti ná þeim þröskuldi að fólk fari að segja þetta gott,“ sagði hann.
Þrátt fyrir fækkun áskrifenda er Netflix enn stærsta streymisveitan í heiminum. Í lok júní hafði Netflix 220 milljón áskrifendur hvaðanæva úr heiminum.