Á tíma­bilinu apríl til júlí á þessu ári missti Net­flix um milljón á­skrif­endur. Stjórn­endur Net­flix höfðu búist við að fleiri myndu hætta sem á­skrif­endur en segja að þættirnir Stranger Things hafi bjargað þeim fyrir horn.

Í apríl á þessu ári greindi streymis­veitan frá því að í fyrsta skiptið frá árinu 2011 hefðu á­skrif­enda­fjöldinn lækkað. Í kjöl­far þess var hundruðum sagt upp og hluta­bréf í fyrir­tækinu snar­lækkuðu.

Fækkun á­skrif­enda hefur ekki verið svona mikil frá stofnun fyrir­tækisins. Flestir þeirra sem sögðu á­skrift sinni upp eru frá Norður Ameríku en Evrópa fylgir eftir þeim.

Guy Bis­son, fram­kvæmda­stjóri greiningar­fyrir­tækisins Ampere Analysis, segir í sam­tali við BBC að það hafa verið ó­um­flýjan­legt að Net­flix myndi á ein­hverjum tíma­punkti byrja að tapa á­skrif­endum. Grip þeirra á streymis­veitu­markaðinum hefur verið að veikjast á síðustu misserum. Fjöldi nýrra streymis­veita hefur verið að skora á Net­flix með lægra verði og fjöl­breyttara efni.

„Þegar þú ert leið­togi í ein­hverju er bara ein leið fram á við, sér­stak­lega þegar fjölga fer í sam­keppninni. Net­flix hefur séð það á síðustu árum,“ sagði hann.

Seint á síðasta ári hækkaði verðið hjá Net­flix. Grunná­skriftin hækkaði ekki en allar aðrar á­skriftar­leiðir hækkuðu samt sem áður. Á Ís­landi kostar ó­dýrasta á­skriftar­leiðin í dag rétt undir 1.200 krónur en sú dýrasta er um 2.500 krónur.

Bis­son segir verð­hækkanir auð­vitað geta hrakið á­skrif­endur í burtu. „Þau munu á ein­hverjum tíma­punkti ná þeim þröskuldi að fólk fari að segja þetta gott,“ sagði hann.

Þrátt fyrir fækkun á­skrif­enda er Net­flix enn stærsta streymis­veitan í heiminum. Í lok júní hafði Net­flix 220 milljón á­skrif­endur hvaða­næva úr heiminum.