Netflixhækkar mánaðarlegt áskriftarverð á tveimur verðflokkum af þremur frá og með morgundeginum og verður hækkunin innifalin í næsta gjalddaga áskrifenda.

Áskrifendur hafa um þrjá verðflokka að velja, Basic, Standard og Premium, og tekur hækkunin til verðflokkanna Standard og Premium, en ekki Basic. Í þeim flokki verður verðið áfram óbreytt, 7,99 evrur á mánuði, eða sem nemur um það bil 1.134 krónum miðað við gengi dagsins.

Mánaðarlegt gjald fyrir áskrift að verðflokknum Standard er nú 10,99 evrur og fer í 11,99 evrur sem er 9 prósenta hækkun og verður við gildistöku hækkunarinnar um 1.700 krónur á mánuði. Mánaðarlegt gjald fyrir áskrift að Premium, sem sýnir efni í háskerpu og leyfir tengingu við allt að fjóra viðtakendur hækkar um 14 prósent upp í 15,99 evrur, sem jafngildir 2.269 krónum.

Hækkunina má rekja til aukinna umsvifa bandarísku efnisveitunnar en á undanförnum árum hefur Netflix ráðist í mjög kostnaðarsama framleiðslu á kvikmyndum og þáttaröðum sem njóta mikilla vinsælda um allan heim og verður haldið áfram á sömu braut.

Auk kostnaðarsamrar framleiðslu hefur Netflix varið umtalsverðum fjárhæðum til tæknimála.