Bandaríska streymisveitan hefur hafið viðræður við handritshöfundinn Mark Boal um gerð kvikmyndar um atburði undanfarinna daga á Wall Street þar sem hópur smárra fjárfesta tók sig saman á samfélagsmiðlinum Reddit og fjárfesti í hlutabréfum í tölvuleikjaversluninni GameStop og kvikmyndahúsakeðjunni og sjónvarpsfyrirtækinu AMC. Vogunarsjóðurinn Melvin Capital, sem hafði ætlað sér að græða á lækkun hlutabréfa í GameStop með skortsölu á hlutabréfum í fyrirtækinu varð fyrir tekjufalli sem nam 53% í janúar vegna kaupa netverjanna, samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC.

Skortsala er þegar eign er fengin að láni og hún síðar seld með það að markmiði að kaupa hana aftur á lægra verði. Til að endurgreiða lánið sem tekið var fyrir fjárfestingunni þarf að kaupa eignina aftur. Þessi aðferð er til dæmis beitt þegar veðjað er á að verðgildi eignar lækki. Þeir sem taka skortstöðu geta þá keypt eignina á lægra verði en þeir seldu hana á og grætt þegar þeir hafa losað sig úr skortstöðu.
GameStop hefur verið í miklum rekstrarerfiðleikum líkt og margar verslunarkeðjur í Bandaríkjunum. Hlutabréf í fyrirtækinu voru verðlögð á 20 dollara í lok desember en hækkuðu upp í 350 dollara á miðvikudaginn. Með verðhækkunum bréfanna neyddust vogunarsjóðir sem veðjað höfðu á verðfall bréfa í fyrirtækinu að kaupa bréf í því til að vega upp á móti tapi vegna verðhækkana á hlutabréfunum. Verð á bréfum í GameStop er nú 225 dollarar og hlutabréf í AMC eru nú verðmetin á 13 dollara.

Hlutabréfamiðlunin Robinhood, sem gerir smærri fjárfestum kleift að kaupa hlutabréf, lokaði fyrir sölu á bréfum í GameStop á fimmtudaginn. Elon Musk, forstjóri bílafyrirtækisins Tesla, lét Vladimir Tenev einn stofnanda Robinhood heyra það á samfélagsmiðlinum Clubhouse í gær fyrir að loka á sölu bréfanna og sakaði fyrirtækið um að ganga erinda vogunarsjóða á kostnað smærri fjárfesta. Hann hefur lengi talað gegn skortsölu á hlutabréfum og lýst þeim sem „löglegri“ svikamyllu.
Tenev hefur þvertekið fyrir þessar ásakanir og segir orðróma um að fyrirtæki hans hafi látið undan þrýstingi vogunarsjóða ekki eiga við rök að styðjast. Hann segir ástæðuna fyrir því að lokað var á kaup og sölu í bréfum í GameStop vera að fyrirtækið þurfi að fylgja lögum og reglum um lausafjárstöðu Robinhood.
Mark Boal skrifaði meðal annars handritið að kvikmyndinni Zero Dark Thirty sem fjallaði um þegar Osama Bin Laden var ráðinn af dögum af bandarískum sérsveitarmönnum og The Hurt Locker, um sprengjusérfræðing í Íraksstríðinu sem hann hlaut tvenn Óskarsverðlaun fyrir, bæði fyrir upprunalegt handrit og bestu mynd. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir handrit sitt að Zero Dark Thirty en báðum myndunum var leikstýrt af Kathryn Bigelow. Kvikmyndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna, meðal annars sem besta myndin og besta upprunalega handritið.

Samkvæmt heimildum Deadline er ráðgert að hinn 24 ára gamli Noah Centineo fari með aðalhlutverk í mynd Netflix en hann er þekktastur leik sinn í mynd streymisveitunnar “To All the Boys I’ve Loved Before.” Auk þess hefur framleiðslufyrirtækið Metro-Goldwyn-Mayer í hyggju að gera mynd um málið sem hlotið hefur vinnuheitið „The Anti-Social Network.“. Hún verður byggð á bók Ben Mezrich og Metro-Goldwyn-Mayer festi kaup á. Mezrich skrifaði bókina „The Accidential Billionaires“ sem fjallaði um upphaf samfélagsmiðilsins Facebook. David Fincher leikstýrði kvikmyndinni „The Social Network“ byggðri á bókinni árið 2010 og hlaut hún þrenn Óskarsverðlaun.