Á síðustu tveimur mánuðum hefur NetApp ráðið til sín 20 nýja starfsmenn á Íslandi. Helmingur þeirra hefur þegar hafið störf og aðrir tíu hefja störf á komandi vikum. Fyrir voru starfsmenn rúmlega 60 talsins og fjölgar þeim því rétt um þriðjung með þessum ráðningum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá NetApp en þar segir að frá kaupum NetApp á Greenqloud hafi teymið á Íslandi vaxið jafnt og þétt. Með auknum verkefnafjölda, vegna samstarfs við Microsoft og Google, sé enn frekari vöxtur fyrirsjáanlegur hjá fyrirtækinu og þörfin til að fjölga starfsmönnum sé stöðugt að aukast.

„Verkefnin hjá okkur hafa aukist gríðarlega á undanförnum misserum og við höfum því þurft að bæta við okkur fjölmörgum starfsmönnum. Það er því mikið fagnaðarefni að 20 manns séu að bætast við öfluga liðsheild okkar. Við erum enn að bæta nýjum stöðum við hjá okkur og teymið okkar því í stöðugum vexti“, segir Jónsi Stefánsson, yfirmaður tæknimála hjá NetApp á heimsvísu og framkvæmdastjóri á Íslandi.

NetApp á Íslandi varð til við kaup bandaríska fyrirtækisins NetApp Inc. á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud árið 2017. NetApp var stofnað 1992 og hefur verið skráð á Nasdaq verðbréfamarkaðinn í New York frá 1995. Frá 2012 hefur NetApp verið á lista Fortune yfir 500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna. Hjá fyrirtækinu starfa um 11.000 manns á heimsvísu og hefur skrifstofan á Íslandi leitt stór hugbúnaðarþróunarverkefni í samstarfi við stærstu tæknifyrirtæki heims; Microsoft, Google og Amazon.