Nesdekk hefur keypt eignir út þrotabúi Sólningar. Verkstæði Sólningar verða hins vegar áfram rekin af þrotabúinu.

Þetta kemur fram í svari Nesdekks við fyrirspurn Fréttablaðsins en ekki fékkst staðfest hvaða eignir var um að ræða.

Sólning varð gjaldþrota vor og ákvað þrotabúið að halda rekstrinum gangandi. Tekjur félagsins námu um 2 milljörðum króna árið 2017 og það var með um 35 prósenta hlutdeild í dekkjasölu á Íslandi í fyrra. Gjaldþrotið skildi því eftir sig risavaxinn dekkjalager.

Skiptastjóri sagði í samtali við Fréttablaðið í apríl að Sólning væri með 50 þúsund dekk á lager og verðmæti lagersins næmi um 500 milljónum króna.

„Þrotabúið er að selja eignir Sólningar og Nesdekk var bara að kaupa hluta þeirra. Sólning verður áfram rekið af núverandi aðilum í einhvern tíma til að lágmarka tjón skuldaeiganda,“ segir í svari frá Nesdekk.

„Óvisst er hversu mörg dekk verða keypt af Sólningu þar sem að þrotabúið mun áfram reyna að selja eins mikið og þau geta.“

Í vor var útlit fyrir að kröfur á hendur þrotabúinu næmu meira en 800 milljónum króna en Landsbankinn er á meðal stærstu kröfuhafa þrotabúsins.

Nesdekk er 20 ára gamalt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu í kringum dekk. Nesdekk verkstæði eru á 6 stöðum í Reykjavík, Akureyri, Reykjanesbæ og Garðabæ.