For­svars­menn Sam­kaupa neita að vöru­verð hafi verið hækkað þegar Kjör­búðinni í Reykja­hlíð var breytt í Kram­búð en líkt og Frétta­blaðið greindi frá um helgina gekk bréf um Mý­vatns­sveit þar sem dæmi voru tekin um breytingu á vöru­verði frá því að Kjör­búðinni var breytt í Kram­búð.

Ólga hefur verið í Mývatnssveit vegna málsins og stéttafélagið Framsýn gagnrýndi gjörning Samkaupa harðlega á fundi sínum í júní. Um 300 manns skrifuðu undir á­skorun þess efnis að Sam­kaup skyldi endur­skoða breytinguna.

Dæmi um vöruverð ekki í takt við breytta verðstefnu

Að því er kemur fram í til­kynningu Sam­kaupa var rekstrar­formi verslunarinnar breytt í Kjör­búð í lok árs 2017 en sú breyting hafði ekki styrkt reksturinn eins og vonast var eftir. Ráðist var í margs konar að­gerðir til að bregðast við CO­VID-19 far­aldrinum, til að mynda var af­greiðslu­tíma breytt og í tveimur verslunum var breytt um rekstrar­form.

Sam­kaup segja breytta verð­stefnu ekki vera í takt við þau dæmi sem nefnd voru í Frétta­blaðinu, þar sem fram kom að mjólk hafi til dæmis hækkað um 17,7 prósent, vanillu­skyr um 16 prósent og Heimilis­brauð um 15 prósent.

„Verð á markaði er sí­breyti­legt og það er alltaf hægt að finna sveiflur í verði, bæði til hækkunar og lækkunar. Ýmsar vörur hafa hækkað í verði síðustu mánuði en fjöldinn allur af vörum hefur einnig lækkað,“ segir í til­kynningu Sam­kaupa og eru þar tekin dæmi um að Smjörvi hafi lækkað um 13,8 prósent, Heimilis­brauð um 15 prósent og Flórídana appel­sínu­safi um 18,2 prósent.

Reynt að mæta hækkun hjá birgjum með aðhaldi í rekstri

Þá segir að Sam­kaup hafi ekki hækkað vöru­verð í verslunum sínum síðustu tólf mánuði um­fram þær hækkanir sem hafa orðið hjá birgjum þeirra. „Sam­kaup hafa eftir fremsta megni reynt að mæta hækkunum frá birgjum með að­haldi í rekstri og hefur á­lagning í verslunum fyrir­tækisins ekki aukist á milli ára,“ segir enn fremur og er það tekið fram að verð­lag hafi á­valt lækkað í þeim til­fellum sem Sam­kaup hefur tekið yfir rekstur lands­byggðar­verslana.

„Sam­kaup hafa lagt sig fram um að sinna hlut­verki sínu af á­byrgð, tryggja neyt­endum hag­stætt vöru­verð og á sama tíma að tryggja rekstrar­legan grund­völl verslana sinna. Hér eftir sem hingað til mun starfs­fólk Sam­kaupa leggja sig fram í því verk­efni.“