„Það var viðbúið að bankarnir myndu ráðast í hagræðingaraðgerðir. Rekstrarkostnaður bankakerfisins er einfaldlega of hár. Þá er rekstrarumhverfið erfitt, regluverkið hefur tekið miklum breytingum og eiginfjárkröfur hafa aukist umtalsvert,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins í samtali við Markaðinn.

„Slíkar breytingar styrkja viðnámsþrótt bankanna en hafa um leið aukinn kostnað í för með sér. Við það bætist að sértæk skattheimta á bankanna er hér miklu meiri og í raun úr öllu samræmi við það sem gengur og gerist erlendis. Stjórnendur bankanna hafa sagt að grípa verði til aðgerða og því miður virðist þetta nauðsynleg aðgerð miðað við stöðuna sem við blasir.“

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans en það felur meðal annars í sér að starfsfólki bankans mun fækka um eitt hundrað eða um tólf prósent. Skipulagsbreytingarnar eru liður í vegferð bankans að settum markmiðum um 50 prósenta kostnaðarhlutfall og arðsemi eiginfjár umfram 10 prósent. Þá sagði Íslandsbanki upp tuttugu starfsmönnum í dag.

„Arðsemi af rekstri bankanna hefur ekki verið nægilega góð og hefur verið langt undir arðsemiskröfu eigenda og þar með ríkisins sem er enn eigandi tveggja af þremur stærstu viðskiptabönkunum,“ segir Ásdís og bætir við að töluverðar áskoranir felist í því að reka banka í því rekstraumhverfi sem þeir búa við í dag. Kostnaður bankakerfisins hafi einfaldlega verið of hár og nú sé verið að grípa til aðgerða til að bæta afkomuna.

„Frá árinu 2011 hafa stjórnvöld lagt sértæka skatta á bankana, upphaflega til að bæta ríkissjóði kostnað vegna fjármálaáfallsins en sá kostnaður hefur verið greiddur að fullu og gott betur. Sértækir skattar sem bankarnir greiða eru á skjön við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum,“ segir Ásdís.

Slík skattheimta kemur að sögn Ásdísar niður á samkeppnisstöðu íslenskra banka sem eru í mörgum tilfellum í beinni samkeppni við erlenda banka um útlán, til að mynda til stærstu útflutningsfyrirtækja landsins. Þá eru bankarnir einnig í beinni samkeppni við lífeyrissjóðina á íbúðalánamarkaði. Á endanum séu það viðskiptavinir bankanna sem greiða slíka skatta í formi lakari vaxtakjara.

„Stjórnvöld áformuðu að lækka bankaskattinn á næsta ári en því var slegið á frest. Bankaskatturinn á að lækka frá og með árinu 2021 miðað við núverandi áform, en þrátt fyrir fyrirhugaða lækkun verður skattlagningin hér á landi enn rúmlega fimmföld meiri en í nágrannaríkjum. Árlegar tekjur ríkissjóðs af sérsköttum bankanna eru um 15 milljarða króna á ári, en í því samhengi má nefna að það er metið að hagræðingaraðgerðir í Arion banka muni bæta árlega afkomu bankans um 1,3 milljarða króna,“ segir Ásdís.

Skipulagsbreytingar bankans tóku gildi strax í dag.

„Það væri lag ef stjórnvöld myndu nú stíga fram, ráðast í umbætur á sínum eigin rekstri og skapa svigrúm til að lækka sérskatta á fjármálafyrirtækin hraðar og meira en núverandi áform gera ráð fyrir. “segir Ásdís.

Þá segir hún aukna samkeppni fyrirsjáanlega, t.a.m. muni fjártækni breyta verulega starfsháttum fjármálageirans og bankarnir þurfi einfaldlega að aðlaga sig að breytingunum sem þeim fylgja.