Haustfundur Landsvirkjunar var að öllu leyti helgaður breyttri heimsmynd í orkumálum og orkuskiptum.

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það enga tilviljun. Aðstæður í orkumálum hafi breyst hratt að undanförnu og það hafi áhrif hér eins og annars staðar.

„Landsvirkjun þarf að laga sig að þessum breytingum eins og aðrir. Stóraukin eftirspurn og orkukreppa kallar á meiri sveigjanleiki orkuframleiðenda. Landsvirkjun er þar engin undanteknin,” segir Hörður.

Hér áður fyrr hafi Landsvirkjun aðallega unnið með stórfyrirtækjum en staðan sé önnur í dag.

„Nú ríður á að við rýnum gaumgæfilega í stöðuna og sjáum til þess að við séum tilbúin til að mæta þeirri orkuþörf sem er að myndast í samfélaginu.

Samsetning okkar viðskiptavina er sömuleiðis að þróast og breytast. En þá er líka mikilvægt, á meðan við förum í gegnum þennan fasa, að geta reitt okkur á stóra og trausta núverandi viðskiptavini. Það gefur okkur svigrúm til að ráðast í framleiðslu á nýrri orku og búið í haginn án þess að vera alltaf búin að fullselja orkuna,“ segir Hörður.

En ef við ætlum að taka út allt jarðefnaeldsneyti og hverfa frá því að flytja inn um milljón tonn af slíkum orkugjöfum til landsins, þá verðum við að framleiða meira.

Í því samhengi, segir Hörður, að staða lands sem er ríkt af umhverfisvænum orkuauðlindum hafi gerbreyst á skömmum tíma.

„Það er gríðarleg umframeftirspurn eftir grænni orku í heiminum. Staða Íslands er því mjög öfundsverð. Þetta er sú staða sem við viljum vera í því það gerir okkur kleift að stýra því betur hvernig við nýtum orkuna.“

Hörður segir Landsvirkjun ekki hafa farið varhluta af umræðu um það hvort Ísland þurfi í raun að framleiða meiri orku en gert er í dag. Hvort áskoranir framtíðar snúist ekki frekar um að fara betur með þá orku sem fyrir er.

„Við eigum að nýta okkar núverandi orku betur. Það er alveg rétt. Breyta neyslumynstrinu og umgangast orkuna af skynsemi. En ef við ætlum að taka út allt jarðefnaeldsneyti og hverfa frá því að flytja inn um milljón tonn af slíkum orkugjöfum til landsins, þá verðum við að framleiða meira. Það er alveg á tæru.“

Hörður segir það í raun grunnforsendu þess að hægt verði að styðja við mikilvægan fjölbreytileika í atvinnulífinu um allt land. Og styðja við nýsköpun á sviði orkunýtingar.

„Það er í raun ótrúlegt að við séum að velta því fyrir okkur í alvöru að Ísland geti stigið nauðsynleg skref inn í græna framtíð án frekari orkunýtingar.“

Fullt var út úr dyrum á haustfundi Landsvirkjunar á Hótel Reykjavik Nordica í gær.

Í því sambandi segir Hörður allt að því furðulegt að fylgjast með umræðu um lokun álvera.

„Það er hægt að leggjast í alls konar greiningar á því en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er ekki bara illframkvæmanlegt að loka álverum, heldur er það líka óskynsamlegt og óábyrgt við núverandi aðstæður.“

Slíkar hugmyndir séu, að mati Harðar, dæmi um að umræðu um orkuframleiðslu á Íslandi sé föst í ákveðnum hjólförum.

„Ég verð þó að segja að mér finnst ný ríkisstjórn vera að höggva á nauðsynlega hnúta í þeim efnum. Bara það að sameina ráðuneyti lofslags, umhverfis og orku er mjög mikilvægt framfaraskref.“

Umræða um loftslagsmál og orkuskipti er í raun ekki pólitík. Þetta er miklu frekar verkfræði.

Enda segir Hörður að áskoranir og umræða í orkumálum eigi ekki eingöngu að fara fram á sviði stjórnmálanna

„Umræða um loftslagsmál og orkuskipti er í raun ekki pólitík. Þetta er miklu frekar verkfræði.

Við höfum sett okkur ákveðin markmið í þessum efnum. Spurningin sem blasir við okkur núna er hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Og hvað við þurfum að gera til að standast tímaramma þessara markmiða.“

Í því tilliti segir Hörður mikilvægt að við hreyfum okkur hraðar en við höfum gert síðustu ár.

„Við þurfum að gera meira. Það á ekki bara við um stjórnvöld eða orkufyrirtækin. Atvinnulífið í heild sinni þarf líka að spýta i lófana.

Þær iðngreinar sem eiga eftir að klára stærstu verkefni orkuskiptanna eru ekki orkufyrirtæki. Þá er ég að tala um ferðaþjónustu, sjávarútveg og alla flutninga sem dæmi. Þessar iðngreinar eru að fara sér allt of hægt ef við eigum að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Þannig að það er mitt mat að við stöndum frammi fyrir stærri vandamálum á eftirspurnarhliðinni í orkumálum en á framboðshliðinni.

Hörður segir fyrirsjáanlegt að stjórnvöld muni þurfa að þrýsta meira á þessar atvinnugreinar en gert hefur verið hingað til.

„Við söknum þess að ákveðnar atvinnugreinar axli meiri ábyrgð í nauðsynlegum orkuskiptum og loftslagsmálum. Við erum svo sannarlega tilbúin til að vinna með atvinnulífinu en fyrirtækin þurfa marka sér skýrari stefnu,“ segir Hörður.