Ráðist verður í umfangsmikinn niðurskurð hjá Reykjavíkurborg á næstu árum.

Þetta er meginstefið í fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fyrir borgarráð í gær.

Meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til er flöt aðhaldskrafa og tæplega fimm prósenta hækkun gjalda.

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir stöðuna í rekstri borgarinnar óásættanlega. „Við hreinlega verðum að taka í hornin á rekstri borgarsjóðs og gera það af festu.“

Einar segir aðgerðirnar þær umfangsmestu í rekstri borgarinnar frá efnahagshruni. Mikilvægast sé þó að takmarka áhrif aðgerðanna á borgarbúa og verja þjónustuna.

„Það ríkir sátt um þetta í meirihlutanum. Verðbólgan bitnar á borginni eins og öðrum og lánskjör hafa versnað. Við verðum því að leita inn á við og hagræða.

Okkar áætlanir ganga út á að koma böndum á reksturinn innan þriggja ára

Þrátt fyrir niðurskurðinn er útlit fyrir sex milljarða króna halla á næsta ári samkvæmt áætluninni. Útgönguspá yfirstandandi árs gerir jafnframt ráð fyrir halla upp á 15 milljarða.

Aðspurður hvort þessar aðgerðir dugi til segir Einar mikilvægt að horfa til nokkurra ára tímabils í senn og skera niður í skrefum.

„Við ætlum að ráðast í tveggja prósenta hagræðingu strax á næsta ári og halda svo áfram á því næsta. Okkar áætlanir ganga út á að koma böndum á reksturinn innan þriggja ára.“

Til þess að svo megi verða þurfi að rifa seglin og draga úr útgjöldum að mati Einars.

„Við sjáum til dæmis að launakostnaður er orðinn allt of hár. Við þurfum að stíga ákveðið á bremsuna þar og erum að gera það með nýjum ráðningareglum sem gilda á öllum sviðum nema í leikskólum, frístund og í hluta velferðarþjónustunnar.“

Einar segist ekki ætla að fella neina dóma yfir ákvörðunum fyrri meirihluta varðandi stöðuna. Aðalatriðið sé að grípa til markvissra aðgerða og horfa raunsætt á stöðuna eins og hún blasir við í dag.

„Reykjavík er ekki eina sveitarfélagið sem glímir við alvarlegan rekstrarvanda um þessar mundir. Málaflokkur fatlaðra er undirfjármagnaður og það hefur áhrif á rekstur sveitarfélaga um allt land.

Við erum einfaldlega að segja að við þurfum að beita okkur á öllum vígstöðvum. Sækja aukið fjármagn frá ríkinu og rétta þannig við rekstur viðkvæmra málaflokka, en um leið draga úr útgjöldum og koma grunnrekstri borgarsjóðs í betra horf,“ segir Einar