Sigurjón Andrésson, forstöðumaður markaðsmála og forvarna hjá Sjóvá, segir að Náttúruhamfaratrygging Íslands bæti tjón á húsnæði og bryggjumannvirkjum sem verði við náttúruhamfarir á borð við snjóflóð. Reyna muni á tryggingafélögin varðandi tjón á ökutækjum og bátum vegna snjóflóða sem féllu í gærkvöldi.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð í gærkvöldi og þriðja flóðið fjall í Súgandafirði fjarri byggð. Fram hefur komið í fjölmiðlum sjö af átta bátum í höfninni hafi sokkið.

Flóðið úr Skolla­hvilft féll með­fram varnar­garði og út í smá­báta­höfnina og olli þar miklu tjóni á bátum en ekki slysum á fólki. Þriðja snjó­flóðið féll í Súganda­firði við Norður­eyri og náði einnig út í sjó. Flóð­bylgja af völdum þess olli skemmdum á húsum við ströndina utan og innan við höfnina á Suður­eyri, en ekki slysum á fólki.

Sigurjón segist ekki vita hve margur bátar eða bílar sem hafi skemmst hafi verið tryggðir hjá Sjóvá. Kaskótryggingar bíla muni bæta tjón á þeim og húftrygging bæti tjón báta.

„Þetta eru ekki stórtjón. Hlutverk okkar er að bæta tjón fljótt og vel,“ segir hann.

Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála, segir að það liggi ekki enn fyrir hvaða bátar sem urðu fyrir tjón hafi verið tryggðir hjá TM.

Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, er sama sinnis og segir að það sé of snemmt að segja hvert umfang bóta tryggingafélagsins verður.