Netverslunin Boohoo keypti í síðustu viku tískumerkin Coast og Karen Millen út úr gjaldþrotameðferð. Merkin ættu að vera Íslendingum að góðu kunn, en þau voru áður í eigu Baugs og síðar undir hatti slitastjórnar Kaupþings frá árinu 2009. Boohoo mun áfram selja fatnað undir merkjunum. Verslunum Coast og Karen Millen verður hins vegar lokað, en þær eru í dag tæplega tvö hundruð talsins. Sennilegt er að langflestir ef ekki allir 1.100 starfsmenn fyrirtækjanna missi vinnuna.

Kaupþing hefur verið með þessi þekktu tískumerki í fanginu í um áratug. Á þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar, bæði í tískugeiranum og hvað varðar uppgjör bankanna. Tíu ár eru langur tími í viðskiptum, og í raun þykir það einstaklega langur tími til að halda á fjárfestingu. Að ekki sé talað um þegar eigandinn er banki í slitameðferð, sem í eðli sínu hlýtur að vilja ljúka málum hratt og örugglega.

Í þessu tilviki virðist því hins vegar öfugt farið. Fulltrúar bankans sátu í stjórn félagsins og virðast reglulegar ferðir til Lundúna til skrafs og ráðagerða hafa farið vel í þá, enda verkefnið áhugavert og vafalaust vel launað. Því er spurning hvort varð ofan á, hagsmunir bankans og kröfuhafa hans af því að losa fjárfestinguna hratt og á sómasamlegu verði, eða persónulegir hagsmunir fulltrúa bankans. Miðað við endalokin virðist hið síðara hafa vegið þyngra. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Kaupþingi hafi borist fjöldinn allur af tilboðum í fyrirtækin gegnum tíðina. Ekkert þeirra þótti hins vegar ásættanlegt. Alltaf skyldi áfram haldið. Bankamenn gerðust tískumógúlar.

Á meðan breyttist tískugeirinn hratt. Netverslun varð æ fyrirferðarmeiri, og gamla verslunarmódelið á undir högg að sækja. Fyrirtæki sem byggðu á því módeli sátu uppi með of margar verslanir og sligandi leiguskuldbindingar. Hjá Karen Millen og Coast bættist við að varningur félagsins tapaði mesta glansinum, enda enginn eigandi að nostra við hönnun, efni og annað sem til þarf. X-faktorinn farinn. Fyrirtækin dagaði því uppi eins og nátttröll í höndunum á Kaupþingi. Illa farið með góð merki, og kæruleysislega með lífsviðurværi starfsmanna.

Látum annan stofnanda Karen Millen og Coast, Kevin Stanford, eiga lokaorðin: „Þetta er harmafregn fyrir starfsfólkið, en eitthvað varð að gerast þar sem núverandi eigendur hafa eyðilagt félagið. Svona gerist þegar bankar reka tískufyrirtæki.“