Þórarinn Ævars­son, fram­kvæmda­stjóri IKEA á Ís­landi, segir að ekkert rétt­læti þá verð­lagningu sem sumir veitinga­staðir og bakarí bjóði upp á Ís­landi. Hér á landi sé víða að finna „yfir­gengi­lega“ verð­lagningu og af­leiðing þess sé meðal annars sú að Ís­lendingar séu hættir að fara út að borða. 

Þórarinn hélt erindi á ráð­stefnu Al­þýðu­sam­bands Ís­lands í morgun, Af hverju er verð­lag á mat­vöru á Ís­landi svona hátt? Hann rakti sína reynslu í fyrir­tækja­rekstri en hann er lærður bakari og kom að stofnun Domin­os hér á landi áður en hann tók við IKEA árið 2005. 

Saga IKEA-íssins

Veitinga­staður IKEA er einn sá mest sótti á Ís­landi. Á­stæðuna segir Þórarinn vera lágt verð og viljann til að koma til móts við við­skipta­vini. Hann sé með lágu verðin „á heilanum“ og hugsi stans­laust um hvernig hægt sé að koma til móts við við­skipta­vini staðarins. 

Í erindi sínu sagði hann sögu af IKEA-ísnum í brauð­formi. Árið 2006 hafi hann kostað 50 krónur í IKEA á meðan launa­þróun fór upp á við. Upp hafi sprottið um­ræða um að hækka verðið á ísnum um 10 krónur. 

„Stóra vanda­málið var það að við vorum með 30 fer­metra stórt segl hangandi með mynd af ísnum og verðinu. Það kostaði 500 þúsund krónur að skipta um seglið. Það þýddi það að ég þurfti að selja 50 þúsund ísa á nýju verði bara til að borga upp seglið og á þessum tíma voru 50 þúsund ísar rúm­lega árs­salan hjá mér,“ sagði hann. 

Á­kvörðunin hafi að lokum verið sú að hækka ekki. Hann hafi hins vegar fengið yfir sig því­líkar skammir árið 2010 þegar skrefið var tekið að fullu og verð á ísnum hækkað um 20 krónur, úr 50 í 70 krónur. 

„Neyt­enda­sam­tök þess tíma brugðust ó­kvæða við. Ég var húð­skammaður fyrir að hækka um 40 prósent. Al­gjört auka­at­riði að ís kostaði al­mennt milli 300 og 400 krónur og ekki var tekið til­lit til þess að það var ekki búið að hækka verðið í mörg ár. Lær­dómurinn sem menn geta dregið af þessu er að það er best að hækka nógu djöfulli oft og lítið í einu,“ segir hann. 

Efniskostnaður 11-12 krónur en rukkað um 600 krónur

Hér á landi ríki til­hneiging til að rukka mörg hundruð eða jafn­vel þúsund prósent um­fram raun­kostnað. „Fingur­björg af kok­teil­sósu, sem allir vita að er í grunninn majones og tómat­sósa, kostar allt að 300 krónur en kostnaðurinn er kannski 10 eða 15 krónur. Þetta þekkja allir sem fá sér ham­borgara,“ sagði Þórarinn. 

Þá leyfi sumir pítsu­staðir sér að rukka allt að 600 krónur auka­lega fyrir rauð­lauk sem auka­á­legg á pítsu. Kíló­verðið er undir 300 krónum ef maður tekur til­lit til rýrnunar. „Ef maður miðar við 40 grömm á pítsuna þá er hrá­efnis­kostnaður 11-12 krónur en menn rukka 600 krónur.“ 

Sama gildi um bakarí sem flest rukka um 100 til 160 krónur fyrir rúnstykki á meðan hráefniskostnaðurinn er á bilinu 3 til 6 krónur.

„Þetta er svo yfir­gengi­legt að það er úti­lokað að rétt­læta þetta,“ segir Þórarinn og bætir svo við.

„Maður gæti haldið þessir veitinga­staðir séu í bullandi hagnaði, en því fer hins vegar fjarri. Þegar af­koman er skoðuð kemur í ljós að fæstir þeirra eru að skila merki­legri af­komu.“ 

Stanslaus hækkun „það versta sem hægt er að gera“

Af­leiðingin sé sú að fólk í veitinga­rekstri sem til­einkar sér þessa hætti beri alltaf fyrir sig háum launa- og hús­næðis­kostnaði. 

„Eina úr­ræðið sem þessir aðilar geta hugsað upp er að hækka verðið á vörunni og eru þau við­brögð á vissan hátt skiljan­leg. Þetta er hugsan­lega það versta sem hægt er að gera við þessar að­stæður. Hærra verð fælir fólk enn­þá meira frá,“ segir hann og bætir við að fólk hætti ein­fald­lega að fara út að borða vegna þessa. Það geri hlutina öðru­vísi. 

Hér á landi sé að koma upp kyn­slóð sem þekki það vart að fara út að borða enda sé verð­lagningin út úr kortinu. 

Hann hvetur um­rædda aðila til að sýna kjark og bið­lund og stilla verð­lagningunni í hóf. „Í staðinn fyrir að upp­lifa sig hlunn­farinn myndi al­menningur kannski fara mun oftar út að borða. Fengi sér kannski kók í stað krana­vatns, bjór í stað kóks eða hvít­vín í stað bjórs. Leyfði sér kannski for­rétt, aðal­rétt og eftir­rétt, gengi að lokum út sáttur, lík­legur til að bæði mæla með staðnum og mæta síðar.“

Hlusta má á ræðu Þórarins á vef RÚV.