Sam Bankman-Fried, stofnandi rafmyntakauphallarinnar FTX, staðfesti í dag að félagið hefði óskað eftir að fara í greiðslustöðvun.

Fyrr á þessu ári voru eignir hans verðmetnar á 24 milljarða bandaríkjadala eða tæplega 3500 milljarða.

Bankman-Fried baðst afsökunar á samskiptamiðlinum Twitter í færslu sem sjá má hér fyrir neðan, sólarhring eftir að hann fullyrti að fyrirtækið væri öruggt.

Þá sagðist hann í færslu á Twitter vera að leita leiða til að bjarga fyrirtækinu eftir að Binance, ein stærsta rafmyntakauphöll heims, hætti við áform um að kaupa FTX eftir að hafa skoðað bókhald fyrirtækisins.

Um leið væri hann að leita allra leiða til að standa við skuldbindingar FTX.

Í byrjun vikunnar var fyrirtækið verðmetið á sextán milljarði dala hjá Bloomberg, þrátt fyrir þungan rekstur undanfarnar vikur en það er komið í núll í dag.

Eftir að fréttir bárust af því að fyrirtækið stæði höllum fæti fóru fjölmargir notendur að taka peninga út úr kauphöllinni sem kom snjóboltanum af stað og endaði með beiðni Bankman-Fried um greiðslustöðvun.

Fyrirtækið hefur verið afar fyrirferðarmikið í auglýsingaherferðum sínum og borgaði meðal annars 135 milljónir dala fyrir nafnaréttinn á heimavelli Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta.

Auk þess er fyrirtækið með samstarfssamning við Mercedes í Formúlu 1, rafíþróttaliðið TSM, íþróttastjörnur á borð við Tom Brady og Steph Curry og MLB-deildina í bandarískum hafnabolta.

Þá vakti auglýsing FTX mikla athygli í hálfleik Ofurskálarinnar (e. Superbowl) fyrr á þessu ári þar sem fyrirtækið greiddi um 35 milljónir dala fyrir auglýsingaplássið.

Í auglýsingunni synjaði leikarinn og handritshöfundurinn Larry David öllum nýtískulegum hugmyndum áður en hann féllst á hugmyndina um rafmynt en auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan.