Næst­síðasta flug­vél WOW air er farin frá Ís­landi. Air­bus A321 vélin TF-SKY lagði af stað frá Kefla­víkur­flug­velli upp úr klukkan eitt nú fyrir skömmu.

Er hún ein sjö véla sem flug­fé­lagið fallna var með á leigu hjá leigu­takanum Air Lea­se Cor­por­ation (ALC) sem er í eigu banda­ríska milljarða­mæringsins Ste­ven F. Udvar-Házy.

Guð­jón Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Isavia, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að til hafi staðið að vélin færi í fyrra­dag og svo í gær­morgun. Það hafi hins vegar dregist eitt­hvað.

Full­trúar ALC og þrota­bús WOW air hafi yfir­farið vélarnar ný­verið. Ein vél fé­lagsins, TF-GPA, sé enn kyrr­sett á Kefla­víkur­flug­velli að beiðni Isavia vegna skuldar sem sögð er nema 1,5 til 1,8 milljörðum króna.

Að sögn Guð­jóns mun ALC þurfa að greiða skuldina, sem til er komin vegna van­goldinna lendingar­gjalda WOW air, eða leggja fram við­unandi tryggingu fyrir henni. Full­trúar Isavia og ALC hafi fundað að undan­förnu og standi við­ræður enn yfir.

WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta á fimmtudag í síðustu viku. Fréttablaðið greindi frá því í gær að Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, hefði í hyggju að ýta úr vör nýju flugfélagi og hefði fjárfestakynning vegna þess farið fram á miðvikudag.

Skúli og helstu lykilstarfsmenn WOW air leiti nú fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.