Afrakstur hagkerfisins var talsvert betri á síðasta ári en spár gerðu ráð fyrir. 6,6 prósenta samdráttur er engu að síður þungt högg og er næstmesti samdráttur á einu ári frá stríðslokum. Kröftugri einkaneysla en von var á og öflug fjárfesting í íbúðahúsnæði er einkum ástæða minni samdráttar en vænst hafði verið, segja hagfræðingar.

„Þetta er talsvert betra en spár gerðu ráð fyrir,“ segir Daníel Svavarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

„Helst kemur á óvart hversu kröftug einkaneyslan var. Að einhverju leyti skýrist það af því að töluvert af neyslu sem ella hefði farið fram erlendis færðist hingað heim. Einnig jókst umfang tilfærslna töluvert, til dæmis í gegnum hlutabótaleiðina og lengingu tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta sem studdi við einkaneysluna. Við sjáum svipaða þróun erlendis, þrátt fyrir miklar takmarkanir á verslun og þjónustu vegna sóttvarnaraðgerða virðast neytendur hafa fundið leiðir til að halda áfram að eyða peningum, til dæmis í gengum aukna netverslun,“ bætir hann við.

"Íbúðafjárfesting var einnig mun sterkari en við reiknuðum með en hún minnkaði aðeins um rúmlega eitt prósent en framan af ári var útlit fyrir tveggja stafa tölu í samdrætti hennar."

„Þetta breytir því þó ekki að þetta er næstmesti samdráttur hagkerfisins frá 1945, það var aðeins árið 2009 sem var verra en þá var hagvöxtur neikvæður um 7,7 prósent. Hrun síldarstofna undir lok sjöunda áratugarins er helst það sem kemst nálægt síðasta ári í tilliti efnahagssamdráttar með samdrátt upp á 5,5 prósent. Okkur fjölgaði líka á síðasta ári þannig að landsframleiðsla á hvern íbúa dróst saman um 8,2 prósent á síðasta ári, sem er það mesta í sögunni.“

Maður hálfpartinn dáist að aðlögunarhæfni hagkerfisins, þetta slapp alls saman ansi vel miðað að stærsta útflutningsgreinin datt út.

"Helstu vonbrigðin er að sjá svart á hvítu að opinberar fjárfestingar drógust saman um 9,3 prósent á árinu þrátt fyrir margboðaða aukningu á opinberum framkvæmdum til að vega upp á móti áhrifum samdráttarins," segir Daníel.

Ferðaþjónustan verður að komast af stað

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að besta sviðsmyndin hafi ræst á síðasta ári: „Maður hálfpartinn dáist að aðlögunarhæfni hagkerfisins, þetta slapp alls saman ansi vel miðað að stærsta útflutningsgreinin datt út. Svo kemur fjárfestingin skemmtilega á óvart. Íbúðafjárfesting stendur nánast í stað á árinu og eykst töluvert á fjórða fjórðungi.“

„Þetta er engu að síður þungt högg. Samdráttur um 6,6 prósent er heilmikið og við sjáum mikið atvinnuleysi núna í upphafi árs. En miðað við miklar hömlur á ýmsum rekstri, svo sem veitingahúsa og verslana, er þetta ásættanleg útkoma. Þessi niðurstaða breytir því miður ekki því að við þurfum meiri hagvöxt á næstu misserum en helstu spár gera ráð fyrir ef takast á að vinna hratt bug á atvinnuleysinu. Til þess verður ferðaþjónusta að komast aftur af stað,“ segir Konráð.