„Næsta ár mun verða ár peningaprentunar,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á Peningamálafundi í morgun sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir. Í máli seðlabankastjóra kom fram að bankinn hefði sett í forgang að koma stöðugleika á gengi krónunnar og lækka vexti til þess að bregðast við kórónukreppunni. Næsta skref sé peningaprentun.

„Við þurftum að koma stöðugleika á gengi krónunnar, það var lykilatriði. Næstu aðgerðir eru að byrja að prenta peninga, sem við erum ekki byrjuð að gera. Hvað við getum gert mikið veltur á því hvernig verðbólgan gengur niður.“

Það er mat seðlabankastjóra að gengi krónunnar hafi náð lágmarki og telur hann góðar forsendur fyrir gengisstyrkingu á næstu mánuðum. „Ég held að við sjáum styrkingum í kortunum á næstu mánuðum,“ sagði Ásgeir og nefndi að söluþrýstingur á skuldabréfamarkaði vegna erlendra sjóða væri horfinn, þjóðarbúið væri ekki rekið með viðskiptahalla og eignastaða þess gagnvart útlöndum væri jákvæð. Auk þess hefðu bæði ríkið og bankar aðgengi að erlendri fjármögnun.

„Það eru margir styrkar stoðir sem standa undir gengi krónunnar,“ sagði Ásgeir. „Það er fyrirsjáanlegt að um leið og við sjáum bata í hagkerfinu mun gengi krónunnar styrkjast.“

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær sagði Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, að Seðlabankinn og stjórnvöld væru á rangri leið. Hún sagði að stór hluti þess fjármagns sem var sett í umferð til að styðja við hagkerfið hefði runnið inn á fasteignamarkaðinn í stað þess að fara til fólks og fyrirtækja sem hafa lent í mesta tekjuáfallinu.

„Við eigum eftir að byrja að prenta peninga og peningaprentunin felst í því að kaupa ríkisskuldabréf. Það veltur síðan á ríkinu hvert ábatinn peningaprentunarinnar fer. Ekki Seðlabankanum.“

„Það er gígantískur markaðsbrestur til staðar í núverandi ástandi sem þýðir að kerfið lætur þá einstaklinga og þau fyrirtæki fá peninga í dag sem standa mun betur en restin af hópnum,“ sagði Kristrún.

Ásgeir sagði rangt að Seðlabankinn væri að prenta peninga og dreifa þeim með ójöfnum hætti. Hann ítrekaði jafnframt að bankinn væri ekki byrjaður að prenta peninga. „Við höfum í rauninni tekið peninga út úr kerfinu með inngripum,“ sagði hann og vísað til þess að 100 milljarða króna sala bankans á gjaldeyri hefði tekið krónurnar úr umferð. Þessi aðgerð hefði skapað svigrúm fyrir peningaprentunina sem framundan er.

„Við gáfum bönkum lausafé sem þeir áttu hjá okkur og þeir notuðu lausaféð til að lána út. Við eigum eftir að byrja að prenta peninga og peningaprentunin felst í því að kaupa ríkisskuldabréf. Það veltur síðan á ríkinu hvert ábatinn peningaprentunarinnar fer. Ekki Seðlabankanum,“ sagði Ásgeir.

Eins og kom fram í viðtali við seðlabankastjóra í Fréttablaðinu í dag telur hann sterkan fasteignamarkað lykilatriði í því að halda hagkerfinu gangandi í þessu ástandi. „Það hefði verið skelfilegt ef hann hefði gefið mikið eftir þegar við fengum þennan skell í vor og byggingarmarkaðurinn var kominn í mjög þrönga stöðu.“

Þá sagði Ásgeir á fundinum í morgun að vaxtalækkunum væri ekki aðeins ætlað að búa til ódýrt lánsfjármagn heldur einnig að ýta fjárfestingum yfir í eignamarkaði (equities). „Lífið hefur verið mjög þægilegt fyrir fjárfesta á Íslandi. Þeir hafa getað setið með ríkisbréf og fengið fína ávöxtun,“ sagði Ásgeir.

„Partur af planinu er að ýta fjárfestingu yfir í eignamarkaði. Eftir hrun hefur hlutabréfamarkaðurinn verið of lítill, það hefur of lítið fjármagn farið þangað inn. Ég vil sjá nýja fjárfestingu byggja á eiginfjárframlögum og að þessar vaxtalækkanir búi til öflugri hlutabréfamarkað.“