Avianca, næst stærsta flugfélag Suður-Ameríku og næst elsta flugfélag heims, er búið að óska eftir gjaldþrotaskiptum eftir að kólumbísk stjórnvöld neituðu að aðstoða flugfélagið.

Al Jazeera vekur athygli á málinu í dag. Félagið sem er með höfuðstöðvar sínar í Bogata er stærsta flugfélagið til þessa sem óskar eftir gjaldþrotaskiptum vegna áhrifa kórónaveirunnar.

Avianca var stofnað í árslok 1919, þá undir nafninu SCADTA en árið 1940 var SCADTA og SACO sameinað í flugfélagið Avianca. Hollenska flugfélagið KLM er eina starfrækta flugfélagið sem er eldra en KLM var stofnað tveimur mánuðum fyrr.

Það var ekkert áætlunarflug á vegum Avianca í aprílmánuði né í byrjun maí. Áður fyrr var félagið með áætlunarflug á 114 staði og á flugfélagið 105 flugvélar.

Fyrir vikið eru 20.000 fyrrum starfsmenn félagsins að verða atvinnulausir og hafa ekki fengið greitt laun síðustu mánuði.

Félagið reyndi að endurskipuleggja fjárhaginn á síðasta ári þegar reikningar félagsins sýndu skuldir upp á 7,3 milljarða bandaríkjadala.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Avianca lenti í fjárhagsvandræðum. Rétt fyrir aldamót óskaði flugfélagið eftir gjaldþrotaskiptum áður en auðkýfingurinn German Efromovich frá Bólivíu bjargaði rekstri félagsins.

Háleit markmið Efromovich fóru langt með að ganga frá félaginu á síðasta ári áður en United Airlines veitti félaginu neyðarlán upp á 700 milljónir dala. Ólíklegt er að Avianca geti greitt United skuldina.